Ánægjulegast að horfa á krakkana blómstra

Þórhildur Sigurðardóttir
Þórhildur Sigurðardóttir Ljósmynd/Aðsend

Rafíþróttir eru að breiðast hratt um heiminn og sífellt fleiri aðstöður, félög og iðkendur spretta upp. Hefur Vopnafjörður nú bæst í raðir þeirra sem bjóða upp á rafíþróttir í félagsstarfi sínu og hefur þar verið komið upp rafíþróttadeild. Hún er að vísu enn í mótun en björgunarsveitin Vopni og samfélagið á Vopnafirði taka heilshugar þátt í þeirri uppbyggingu.

Iðkendur á Vopnafirði eru á unglingsaldri, í áttunda til tíunda bekk, og stunda rafíþróttir í klúbb félagsmiðstöðvarinnar Drekans. Hafa flest mætt ellefu en í byggð með tæplega 700 íbúum þýðir það að u.þ.b. 1,5% af bæjarfélaginu eru rafíþróttaiðkendur. Spila þau meðal annars leikina Fortnite, Minecraft, Rocket League og FIFA.

Rafíþróttaiðkendur á Vopnafirði í Fortnite
Rafíþróttaiðkendur á Vopnafirði í Fortnite Ljósmynd/Aðsend

Æfingar á kvöldin

Æfingar fara fram að kvöldi til og taka tvo og hálfan tíma í senn og fer þar af einn og hálfur klukkutími í spilun. Einu sinni í mánuði mætir svo hópurinn til björgunarsveitarinnar Vopna, þar sem farið er í leit, klifur og fleira. Félagsmiðstöðin virkjar einnig krakkana á fleiri máta eins og að spila borðtennis, pool eða fara út að leika.

Frá Vopnafirði.
Frá Vopnafirði. mbl.is/Golli

„Ánægjulegasta af öllu finnst mér að horfa á krakkana sem eru hjá mér blómstra í þessu þar sem þau þurfa oft að hjálpa hinum og þá sérstaklega mér varðandi tölvumálin,“ segir Þórhildur Sigurðardóttir, verkefnastjóri frístunda-, æskulýðs- og fjölmenningarmála Vopnafjarðar. 

Klúbburinn hefur hlotið styrki og nýtt þann pening í kaup á búnaði, þ.e. tvær PC-tölvur, en unglingarnir koma einnig með sínar eigin tölvur svo að allir geti spilað. Klúbburinn sér fyrir skjám og svo er ein PS4-tölva í félagsmiðstöðinni þar sem æft er. Hópurinn hefur nýtt búnaðinn og æfingarnar vel og m.a. tekið þátt í rafíþróttamóti á vegum Samfés. Einnig er stefnt á að taka þátt í Nordic E-Sport United mótinu í byrjun þessa mánaðar.

Minecraft spilað á skjávarpanum í félagsmiðstöðinni Drekinn
Minecraft spilað á skjávarpanum í félagsmiðstöðinni Drekinn Ljósmynd/Aðsend

Spennt fyrir framtíðinni

Áhugi er fyrir því að bæta við tölvum svo krakkarnir þurfi ekki að mæta með sínar eigin, enda ekki hægt að ganga út frá því að allir eigi tölvu heima til þess að taka með sér. Það er í kortunum hjá klúbbnum að fara í einhverskonar fjáröflun til þess að hægt sé að fjármagna búnaðinn og eins að ráða manneskju til þess að halda utan um starfsemina hjá þeim en það býður upp á þátttöku breiðari aldurshóps.

Þórhildur segir ávinning þess að rafíþróttir verði viðurkenndar sem íþrótt vera þann að ungmennin sem iðka íþróttina finni að það sé í lagi og upplifi sig sem þátttakendur í íþróttum. Hún bætir við að þau séu spennt fyrir framtíðinni í þessum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert