FH hefði þurft að greiða uppeldisbætur fyrir Jarvin

Zandra Jarvin.
Zandra Jarvin. Ljósmynd/Christoffer Borg Mattisson

Sænska handknattleikskonan Zandra Jarvin segir FH hafa rift samningi hennar við félagið í samtali við hlaðvarpsþáttinn Handboltinn okkar og ástæðan sé sú að félagið hefði þurft að greiða uppeldisfélagi hennar í Svíþjóð uppeldisbætur vegna félagaskiptanna. 

Jarvin segir FH-inga hafa tjáð sér að uppeldisbæturnar væru hærri en þeir hefðu talið og því hafi félagið kosið að tefla henni ekki fram á Íslandsmótinu. Hún segir jafnframt í viðtalinu að í samningi hennar hafi verið einhvers konar klausa um að FH gæti rift samningi ef kórónuveiran hefði áhrif á mótshaldið á Íslandi.

Zandra Jarvin segist telja að upphæðin sem FH hefði þurft að greiða væri um 8 þúsund evrur eða tæplega 1,3 milljónir íslenskra króna. 

Í reglugerð evrópska handknattleikssambandsins um félagaskipti kemur fram að lið sem láti leikmann á aldrinum 16-23 ára fara, til liðs í öðru landi, geti farið fram á að fá uppeldisbætur fyrir leikmanninn svo framarlega sem leikmaðurinn taki þátt í deildarleik. 

Jarvin finnst vinnubrögð FH-inga vera ófagleg vegna þess að hún hafi verið á Íslandi í einn mánuð til að undirbúa sig fyrir keppnistímabilið í Olís-deildinni þegar hún heyrir af málinu sem í raun er á milli félaganna. Hún tekur það fram að Jakob Lárussyni þjálfara FH hafi ekki verið kunnugt um þetta. Hún ber honum og liðsfélögum sínum vel söguna í viðtalinu í þættinum. 

Að öllu breyttu er hún á leið heim til Svíþjóðar og mun reyna að finna sér lið þar til að spila með í vetur. Spurð um hvort komi til greina að spila fyrir annað lið á Íslandi sagðist hún ekki útiloka það en telur ósennilegt að það verði niðurstaðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert