Vill búa til skemmtilegt lið í Árbænum

Rúnar Páll Sigmundsson er nú þjálfari Fylkis og verður það …
Rúnar Páll Sigmundsson er nú þjálfari Fylkis og verður það til næstu þriggja ára.

„Ég held að það hafi oft vantað herslumuninn í sumar,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, en liðið var fallið úr úrvalsdeild karla fyrir lokaumferð Íslandsmótsins í dag, þar sem liðið tapaði með sex mörkum fyrir Valsmönnum. Rúnar Páll hyggst þjálfa liðið áfram á næsta ári, en hann hefur gert samkomulag til þriggja ára við stjórn Fylkis.

„Þetta er vel spilandi lið og hefur sýnt það, að það getur spilað ágætis fótbolta inn á milli í sumar, en aftur á móti er refsað fyrir minnstu mistök og það heldur oft,“ segir Rúnar Páll, og bætir við að sér hafi þótt leikur síns liðs vera ágætur í fyrri hálfleik og fram að öðru marki Vals. „Við fáum fínar sóknir, en vantar herslumuninn að klára sóknirnar og klára síðustu sendingarnar eftir að hafa spilað fínt upp völlinn. Og eftir þriðja og fjórða markið, þá missa menn trúna og kraftinn.“

Þetta var síðasti leikur Helga Vals Daníelssonar fyrir Fylki, en hann varð fertugur fyrr í sumar. „Hann hefur skilað frábæru starfi fyrir Fylki og átt frábæran feril sem knattspyrnumaður,“ segir Rúnar Páll og bætir við að Fylkir þakki honum kærlega fyrir frábær störf undanfarin ár og misseri.

Framtíð Rúnars Páls með Fylki hefur verið á reiki, en hann var ráðinn inn á lokametrum mótsins eftir að fyrri þjálfarar liðsins létu af störfum vegna laks gengis. Rúnar Páll staðfesti í viðtalinu að hann hefði náð samkomulagi um þriggja ára samning við stjórn félagsins. 

„Það verður mitt hlutverk að búa til nýtt lið hér. Ég hef fulla trú á því að við getum komið með mínar áherslur hérna inn og búið til skemmtilegt lið,“ segir Rúnar Páll og bætir við að hann voni að liðið muni eiga góða möguleika á næsta ári til þess að fara beint upp úr Lengjudeildinni aftur. „Það er hrúga af efnivið hér í Árbænum, og það þarf öfluga menn með þessum ungu strákum til að leiða liðið áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert