Leikurinn sem beðið hefur verið eftir

Olivia Schough í leik með sænska liðinu.
Olivia Schough í leik með sænska liðinu. Ljósmynd/@KevinVH1982

Svíþjóð og Ísland mætast í úrslitaleik um efsta sæti F-riðils undankeppni EM kvenna í knattspyrnu á Ullevi-vellinum í Gautaborg í dag klukkan 17:30 að íslenskum tíma.

Svíþjóð er með 16 stig í efsta sæti riðilsins eftir sex spilaða leiki en íslenska liðið er með 13 stig en á leik til góða á Svíþjóð.

Liðin mættust á Laugardalsvelli 22. september síðastliðinn þar sem þau skildu jöfn, 1:1, en Anna Anvegård kom Svíþjóð yfir í fyrri hálfleik áður en Elín Metta Jensen jafnaði metin fyrir íslenska liðið í síðari hálfleik.

„Markmiðið, frá því að undankeppnin hófst, var alltaf að komast alla leið í undankeppnina,“ sagði Olivia Schough, leikmaður sænska liðsins, í samtali við fotbollskanalen í gær.

„Við erum búnar að hlakka mikið til leiksins gegn Íslandi. Það er virkilega gaman að fá alvöruúrslitaleik í undankeppninni og þetta er sá leikur sem við höfum beðið eftir. 

Það gerist ekki oft að maður spili úrslitaleiki í riðlakeppninni og spennan er því mikil,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert