Segir kjörstjórn hafa beygt stjórnarskrána

Viktor Traustason gagnrýnir vinnubrögð Landskjörstjórnar.
Viktor Traustason gagnrýnir vinnubrögð Landskjörstjórnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Traustason forsetaframbjóðandi hyggst kæra úrskurð Landskjörstjórnar. Í yfirlýsingu, sem Viktor sendi á fjölmiðla fyrr í kvöld, segir að hann telji að undirskriftalistar sínir uppfylli öll skilyrði sem stjórnarskráin setur um kjörgengi til forseta. 

Hann segir í yfirlýsingu sinni að hann hafi skilað inn á annað þúsund undirskriftum á blöðum, en að þær hafi allar verið dæmdar ógildar, þar sem hann hafi sett lista sína upp með því formi að fólk þurfti að skrifa niður nafn, kennitölu og dagsetningu en ekki nafn, kennitölu og lögheimili. Viktor hafi því einungis fengið 69 gildar undirskriftir, en það voru þær sem hann fékk rafrænt. 

„Stjórnarskráin gefur fyrirmæli um kjörgengi til forseta, meðal annars um lágmarksaldur og meðmæli minnst 1500 kosningabærra manna. Ég taldi mig hafa uppfyllt hvort skilyrði. Fleira segir stjórnarskráin ekki en setur þann varnagla að með lögum megi setja nánari reglur. Það var gert árið 1945 með lögum um framboð og kjör til forseta Íslands en Alþingi hefur síðan fellt þessi lög úr gildi en setti engin önnur lög í staðinn,“ segir í yfirlýsingu Viktors.

Hann telji því að meðmælalistar sínir uppfylli öll skilyrði sem stjórnarskrá lýðveldisins setji um kjörgengi til forseta. 

Hafnar úrskurði Landskjörstjórnar

Í úrskurði Landskjörstjórnar segir að sömu reglur gildi um forsetakjör og gilda um alþingis- og sveitarstjórnarkjör en ég hafna því enda segir í ákvæðinu sem Landskjörstjórn vísar í að ráðherra setur reglugerð um form og efni framboðslista,“ segir Viktor enn fremur.

Hann sé því á þeirri skoðun að Landskjörstjórn þurfi að „endurskoða sína lögfræðiþekkingu ef þau telja að stjórnarskráin verði beygð með þeim hætti sem hún gerir í úrskurði sínum.“

„Það er einfaldlega lagaþurrð hvað lögheimilisskilyrðið varðar og þess vegna á stjórnarskráin að gilda og meðmælalistar mínir teknir fullgildir,“ segir Viktor einnig.

Þá segir Viktor í lok yfirlýsingar sinnar að Landskjörstjórn hafi brotið „gróflega gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þegar nokkrir frambjóðendur fengu helgina í að lagfæra sína undirskriftarlista og safna fleirum en aldrei var haft samband við mig varðandi nein vandamál á mínum listum.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert