Tvö dönsk lið sameinast í eitt

Morten Balling í leik með Skanderborg á tímabilinu.
Morten Balling í leik með Skanderborg á tímabilinu. Ljósmynd/Skanderborg

Handboltalið Árósa og Skanderborg, sem bæði leika í dönsku úrvalsdeildinni í karlaflokki, hafa ákveðið að sameinast í eitt lið. Ástæðan fyrir því er sú að lið Árósa stendur frammi fyrir gjaldþroti.

Nágrannaliðin munu sameinast í sumar undir nafninu Skanderborg Århus Håndbold að loknu yfirstandandi leiktímabili. Liðin tilkynntu þetta í sameiningu á blaðamannafundi í dag.

Handboltalið Árósa hættir strax keppni og hefur sagt upp samningi allra leikmanna liðsins. Nýja liðið verður þjálfað af núverandi þjálfara Skanderborg, Nick Rasmussen, og verður fráfarandi þjálfari Árósa, Erik Veje Rasmussen, ekki hluti af þjálfarateyminu.

„Í stað þess að halda áfram keppni á vellinum höfum við með hag stuðningsmanna og styrktaraðila í huga ákveðið að sameinast með það að markmiði að festa okkur í sessi sem eitt af toppliðum dansks handbolta á næstu þremur árum. Við viljum keppa um titla,“ sagði stjórnarformaður nýja liðsins, Jørgen Noes.

Stjórn nýja liðsins mun samanstanda af fjórum aðilum frá hvoru félagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert