Hollendingar missa út tvo markverði

Frakkinn Hugo Descat reynir að skora hjá Bart Ravensbergen í …
Frakkinn Hugo Descat reynir að skora hjá Bart Ravensbergen í leik Frakklands og Hollands í Búdapest í gær. AFP

Hollenska karlalandsliðið í handknattleik, sem hefur komið á óvart á EM í Búdapest undir stjórn Erlings Richardssonar, hefur misst út tvo markverði sína vegna kórónuveirusmits.

Bart Ravensbergen, sem varði vel í leiknum gegn Íslandi á dögunum, og félagi hans Dennis Schellekens, hafa báðir greinst með veiruna og eru komnir í einangrun.

Hollendingar mæta Svartfjallalandi í öðrum leik milliriðilsins á morgun, laugardag, og ljóst að þeir verða í vandræðum með markvörsluna.

Þeir voru aðeins með Ravensbergen í leiknum gegn Frakklandi í gær því þá hafði Schellekens þegar greinst með smit. Markvarðaþjálfarinn Gerrie Eijlers var því til taks á bekknum í leiknum við Frakka. Markvörðurinn René de Knegt hefur verið kallaður inn í hópinn og er væntanlegur til Búdapest í dag.

Alls eru fimm Hollendingar í einangrun þessa stundina en auk markvarðanna eru það þeir Jeffrey Boomhouwer, Robin Schoenaker og Iso Sluijters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert