Sport

Ekki dauður úr öllum æðum: Sjáðu Tom Brady stýra ó­trú­legri endur­komu Tampa Bay

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tom Brady neitar einfaldlega að gefast upp.
Tom Brady neitar einfaldlega að gefast upp. Kevin Sabitus/Getty Images

Hinn 45 ára gamli Tom Brady minnti heldur betur á sig í gærkvöld þegar Tampa Bay Buccaneers risu eins og Fönix úr öskunni í ótrúlegum eins stigs endurkomu sigri á New Orleans Saints í NFL deildinni.

Brady og félagar komust yfir með vallarmarki í fyrsta leikhluta en fengu í kjölfarið á sig snertimark og þrjú vallarmörk án þess að svara á hinum enda vallarins. Staðan var 16-3 Saints í vil um miðbik fjórða leikhluta  og útlitið orðið heldur dökkt fyrir Buccaneers.

Brady henti heilagri Maríu upp í loftið og vonaði það besta. Sendingin endaði ekki hjá samherja en dómarinn veifaði gulu flaggi sínu og brot dæmt á Saints. Refsingin var víti upp á 40 metra sem þýddi að Buccaneers fór úr því að vera við miðlínu vallarins í að vera alveg við endasvæðið.

Þá var ekki að spyrja að því, Brady fann Cade Otton og staðan orðin 16-10. Saints tókst ekki að drepa tímann nægilega vel og Brady fékk boltann aftur í hendurnar þegar 50 sekúndur voru eftir.

Tampa Bay óð upp völlinn og með þrjár sekúndur eftir á klukkunni negldi Brady boltanum í hendurnar á Rachaad White sem datt inn í endasvæðið og tryggði Buccaneers ótrúlegan endurkomu sigur.

Lokatölur 17-10 Buccaneers í vil sem þýðir að Tom Brady hefur nú unnið 249 leiki í NFL deildinni. Tampa Bay er svo áfram á toppi  NFC Suður-riðli deildarinnar með sex sigra og sex töp að loknum 12 leikjum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×