Stórsigur eftir jafnan fyrri hálfleik

Spænska landsliðið fagnaði stórsigri í kvöld.
Spænska landsliðið fagnaði stórsigri í kvöld. Ljósmynd/spænska handknattleikssambandið

Heimsmeistaramót kvenna í handknattleik hófst á Spáni í kvöld þegar gestgjafarnir tóku á móti Argentínu í Torrevieja.

Eftir jafnan fyrri hálfleik náði spænska liðið að hrista það argentínska af sér, valtaði hreinlega yfir það í þeim síðari, skoraði 18 mörk gegn þremur og vann stórsigur, 29:13. Carmen Campos og Alexandrina Cabral voru atkvæðamestar Spánverja með fimm mörk hvor.

Þetta er stærsta heimsmeistaramót kvenna frá upphafi en í fyrsta skipti leika 32 lið á HM og þeim er skipt í átta riðla. Með Spáni og Argentínu í H-riðli eru Austurríki og Kína.

Þórir Hergeirsson er með norska landsliðið í C-riðli ásamt Rúmeníu, Kasakstan og Íran og á fyrsta leik gegn Kasakstan á föstudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert