Viðskipti innlent

Áttu sjö billjónir en skulduðu tvær

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Eiginfjárstaða fjölskyldna í landinu er heilt yfir jákvæð.
Eiginfjárstaða fjölskyldna í landinu er heilt yfir jákvæð. Vísir/Vilhelm

Eiginfjárstaða fjölskyldna hér á landi nam samtals 5,1 þúsund milljörðum á síðasta ári. Heildarskuldir námu 2,2 þúsund milljörðum. Eignir aukast meira en skuldir á milli ára.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar sem tekið hefur saman tölur um eigna- og skuldastöðu heimilanna samkvæmt skattframtölum. Þar kemur fram að eiginfjárstaðan, mismunur á milli heildareigna og heildarskulda, haldi áfram að styrkjast, eða um 9,1 prósent á milli ára.

Þannig jukust heildareignir um 8,6 prósent á milli áranna 2018 og 2019, úr 6,8 þúsund milljörðum yfir í 7,4 þúsund milljarða króna.

Þróun skulda, eigna og eiginfjárstöðu.Mynd/Hagstofan

Eignir teljast sem allar eignir fjölskyldu, þar með talið fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Verðmæti fasteigna miðast við fasteignamat og hlutabréf eru á nafnvirði. Árið 2019 var hlutur fasteigna af heildareignum fjölskyldu um 75,9 prósent og er það langstærsti hluti eigna fjölskyldna á landinu.

Þar kemur einnig fram að eignir fjölskyldna í hæstu tíund, það er ríkustu tíu prósentin, hafi átt eignir sem námu 3,2 þúsund milljörðum, eða 44,6 prósent af heildareignum fjölskyldna í landinu, á síðasta ári.

Þegar kemur að skuldum jukust þær um 7,3 prósent á milli ára og námu þær 2,2 þúsund milljörðum króna.

Skuldir eru skilgreindar sem allar skuldir eða heildarskuldir fjölskyldu og falla þar undir fasteignaskuldir, ökutækjalán, námslán, yfirdráttarlán og kreditkortalán. Skuldir hjóna með börn jukust um 7,9 prósent og einstæðra foreldra um 7,6 prósent. Skuldir hjóna án barna jukust um 6,3 prósent og skuldir einstaklinga um 7,4 prósent.

Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 882 milljörðum króna eða um 38,9 prósent heildarskulda.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×