Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) telja nýjan fríverslunarsamning við Bretland vera vonbrigði og að farið hafi verið á mis við tækifæri í sjávarútvegi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SFS.

Í tilkynningu er sagt að mestu hagsmunir Íslands í viðskiptum gagnvart Bretlandi en sjávarafurðir eru rúmlega 60% af vöruútflutningi til Bretlands og hefði mátt ætla að þunginn í viðræðunum lægi þar.

Í gær fjallaði Viðskiptablaðið um óánægju Félags Atvinnurekenda FA um samninginn og að tækifærum til að útvíkka fríverslun hafi verið kastað á glæ. Þá kom einnig fram að Bændasamtökin hafi fengið tækifæri til að koma skoðunum sínum til einstakra atriða samningsins á framfæri en önnur samtök í viðskiptalífinu ekki.

„Aukin áhersla og metnaður Íslendinga á vinnslu sjávarafurða, til að auka verðmætasköpun enn frekar, kallaði á endurskoðun á gildandi markaðsaðgangi. Raunin er því miður sú, að háir tollar á einstaka sjávarafurðir hamla því verulega að vinnsla þeirra sé rekstrarlega möguleg hér á landi. Má þar helst nefna lax, karfa og ýmsar flatfiskategundir, en þessar afurðir eru að miklu leyti fluttar óunnar úr landi. Þessu hefði verið hægt að breyta með betri markaðsaðgangi gagnvart Bretlandi. Í þeim fríverslunarsamningi sem var undirritaður var þetta, einhverra hluta vegna, ekki sótt. Tækifærin voru ekki gripin. Að þessu leyti veldur samningurinn vonbrigðum. Verðmæti, sem hægt hefði verið að sækja með bættum tollakjörum, verða ekki til," segir í tilkynningunni.