Enski boltinn

Manchester United staðfestir komu Ralf Rangnick

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ralf Rangnick mun taka við liði Manchester United og nú er bara að redda atvinnuleyfi fyrir hann.
Ralf Rangnick mun taka við liði Manchester United og nú er bara að redda atvinnuleyfi fyrir hann. Getty/Roland Krivec

Ralf Rangnick er formlega orðinn knattspyrnustjóri Manchester United eftir að enska úrvalsdeildarfélagið staðfesti komu hans í dag.

Rangnick tekur við starfinu af Ole Gunnar Solskjær en Michael Carrick stýrði Manchester United í tveimur leikjum eftir að Norðmaðurinn var rekinn.

Rangnick mun stýra United liðinu fram á sumar og mun síðan vera ráðgjafi hjá félaginu í tvö ár í viðbót.

„Ég er spenntur fyrir því að koma til Manchester United og er einbeittur í því að gera þetta að árangursríku tímabili fyrir félagið,“ sagði Ralf Rangnick í viðtali við heimasíðu Manchester United.

„Liðið er fullt af hæfileikum og í því er gott jafnvægi á milli ungra leikmanna og reynslubolta. Ég mun næstu sex mánuði, gera allt sem ég get, til að hjálpa þessum leikmönnum að nýta sína möguleika að fullu, bæði sem einstaklingar og ekki síst sem lið,“ sagði Rangnick.

Michael Carrick verður áfram stjóri Manchester United þar til að félagið fær atvinnuleyfi fyrir Rangnick og mun því mögulega stýra liðinu á móti Arsenal á fimmtudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×