Sprengdu fangelsi í loft upp

Skjáskot úr myndskeiði sem uppreisnarhermenn tóku af fangelsinu í Saada …
Skjáskot úr myndskeiði sem uppreisnarhermenn tóku af fangelsinu í Saada eftir loftárásirnar. Eyðileggingin er algjör. AFP

Fjöldi jemenskra fanga létust og enn fleiri særðust í loftárás sem gerð var á fangelsi í Saada í Jemen, yfirráðasvæði jemenskra uppreisnarhermanna. 

Líklegast þykir að loftárásin hafi verið fyrirskipuð af Sádi-arabískum yfirvöldum eða yfirvöldum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum (SAF). 

Hryllileg myndskeið sem uppreisnarhermenn hafa birt sýna hvernig viðbragðsaðilar hópa limlestum líkum fangana í haug fyrir utan uppsprengda fangelsisbygginguna. 

Aðeins sunnar, í Hodeida, sem einnig er yfirráðasvæði uppreisnarhermanna, var einnig gerð loftárás sem Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin taka fulla ábyrgð á. Ríkjunum tókst að hæfa samskiptamiðstöð þar í bæ og síðan árásin var gerð hefur internetið legið niðri eins og það leggur sig í Jemen. Frá Hodeida voru einnig myndbört birt af jarðneskum leifum látinna á víð og dreif um götur bæjarins. 

Sjúkrahúsið í Saada hefur tekið á móti 200 manns sem særðust í árásinni á fangelsið og segist ekki hafa pláss fyrir fleiri sjúklinga. Þar starfa samtökin Læknar án landamæra og segir Ahmed Mahat, leiðtogi Jemen-deildar samtakanna, að enn séu margir særðir úti á götu og enn sé margra saknað.

„Það er ómögulegt að segja til um hversu margir hafa látið lífið í þessum árásum. Þetta virðist hafa verið hryllilegt grimmdarverk,“ segir Mahat við AFP.

Loftárásirnar eru gerðar aðeins fimm dögum eftir að Huthar, sem fara fyrir uppreisnarhernum í Jemen, gerðu árás á Sameinuðu arabísku furstadæmin með þeim afleiðingum að fimm létust. 

Furstadæmin hafa boðað til fundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þar sem ríkið á eitt þeirra sæta sem flyst reglulega á milli aðildarríkja samtakanna.

Ríkið hefur ásamt Sádi-Arabíu og fleiri ríkjum barist gegn uppreisnarhermönnum í Jemen síðan árið 2015. Milljónir saklausra borgara í Jemen hafa þurft að flýja heimili sín og út á Guð og gadd. Sannkölluð mannúðarkrísa hefur ríkt í Jemen síðan átökin brutust út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert