Fimm verður líklega sleppt eftir slagsmálin

Fimm gistu fangageymslur vegna slagsmála í miðbæ Akureyrar í gær.
Fimm gistu fangageymslur vegna slagsmála í miðbæ Akureyrar í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimm menn gistu fangageymslur lögreglunnar á Norðurlandi eystra í nótt vegna slagsmála sem brutust út fyrir utan Bláu könnuna í miðbæ Akureyrar um níuleytið í gærkvöldi.

Einum var sleppt í gærkvöldi og reiknar lögreglan með því að hinum verði sleppt að loknum skýrslutökum. 

Misklíð sem fór úr böndunum

Að sögn lögreglunnar á Akureyri er ekki um skipulagða brotastarfsemi að ræða né árás hóps á einn einstakling. Atvikið hafi byrjað sem misklíð sem stigmagnaðist og fór úr böndunum en aðilarnir voru þarna saman sem hópur.  

Einstaklingarnir fimm eru allir karlkyns og voru þeir látnir gista fangageymslur til að sofa úr sér áfengisvímu. Teknar verða skýrslur af þeim í dag um aðdraganda slagsmálanna og ástæður þess að svona fór. 

Einn slasaðist í slagsmálunum en stokkið var á hann svo hann lenti á rúðu staðarins sem brotnaði. Hann hlaut alvarleg meiðsli á handlegg og var fluttur á sjúkrahús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert