Rekinn eftir rasísk skilaboð

Jens Lehmann.
Jens Lehmann. AFP

Jens Lehmann hefur verið sagt upp ráðgjafastörfum hjá þýska knattspyrnufélaginu Herthu Berlín eftir að hafa sent Dennis Aogo, knattspyrnusérfræðingi og fyrrverandi knattspyrnumanni, rasísk skilaboð.

Skilaboðin, sem áttu eflaust að fara á einhvern annan, voru send á WhatsApp-forritinu og hljómuðu svo: „Er Dennis í alvöru kvótasvertinginn ykkar?“

Aogo, sem er dökkur á hörund, starfar sem sérfræðingur hjá Sky í tengslum við knattspyrnuleiki þar í landi, líkt og Lehmann hefur gert. Aogo tók skjáskot af skilaboðunum og birti á Instagram-aðgangi sínum.

„Er þér alvara? Þessi skilaboð áttu sennilega ekki að fara til mín,“ skrifaði Aogo.

Forsvarsmenn Herthu Berlínar brugðust skjótt við og sögðu Lehmann upp störfum og fordæmdu skömmu síðar orðanotkun hans í yfirlýsingu. Lehmann sjálfur segist hafa beðið Aogo afsökunar.

„Ég sendi einkaskilaboð úr farsímanum mínum til Dennis Aogo sem hægt er að túlka á vissan hátt, sem ég bað Dennis afsökunar á. Sem fyrrverandi landsliðsmaður býr hann yfir mikilli þekkingu og er með frábæra nærveru sem hjálpar til við að auka áhorf á Sky.“

Lehmann, sem er fyrrverandi landsliðsmarkvörður Þýskalands, útskýrði ummæli sín á þann hátt að þýska orðið „quote“ þýði bæði kvóti, sem gefur til kynna að Aogo hafi ekki fengið starfið á eigin verðleikum, og sé einnig notað yfir sjónvarpsáhorf, sem Lehmann segist hafa átt við í skilaboðum sínum.

Dennis Aogo (lengst t.v.) í leik með Hamburg fyrir rúmum …
Dennis Aogo (lengst t.v.) í leik með Hamburg fyrir rúmum áratug. Christian Charisius
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert