Innlent

Eldur í Svartsengi á ekki að skerða orkuframleiðslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá athafnasvæði HS Orku í Svartsengi.
Frá athafnasvæði HS Orku í Svartsengi. Vísir/Vilhelm

Engan sakaði þegar eldur kviknaði í vél í orkuveri HS Orku í Svartsengi í dag. Ekki er búist við því að tjón af völdum eldsins hafi áhrif á framleiðslu á raforku eða heitu eða köldu vatni.

Eldurinn kviknaði í vélarbúnaði í orkuveri 3 í Svartsengi síðdegis í dag, að því er kemur fram í tilkynningu frá HS Orku. Orkuverið var mannlaust þegar eldurinn kviknaði. Starfsmenn lokuðu svæðið af og tókst slökkviliðsmönnum frá Grindavík að slökkva eldinn á skömmum tíma.

Fyrirtækið segir að eldurinn hafi verið lítill og einangraður og því lítil hætta á að hann breiddist út. Upptök eldsvoðans liggja ekki ljós fyrir en talið er að lega hafi brotnað í vélinni.

„Ekki er gert ráð fyrir því að þetta muni hafa áhrif á framleiðslu HS Orku á raforku eða heitu og köldu vatni að öðru leyti en því að framleiðsla vélar í Orkuveri 3 mun stöðvast um tíma á meðan unnið er að úrbótum,“ segir í tilkynningunni.

Sex orkuver sem framleiða rafmagn og heitt vatn eru á athafnasvæði HS Orku í Svartsengi. Orkuver 3 var gangsett í lok árs 1980. Í því er mótþrýstingsgufuhverfill með uppsett afl upp á sex megawött.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×