Verðskulda allir frambjóðendur jafna athygli?

Sumum þykir fjölmiðlar ekki veita frambjóðendunum ellefu jafna athygli.
Sumum þykir fjölmiðlar ekki veita frambjóðendunum ellefu jafna athygli. mbl.is

Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta, segir ójafna athygli fjölmiðla algenga umkvörtun frambjóðenda og stuðningsmanna þeirra bæði hérlendis og víðar í heiminum.

„Maður skilur auðvitað frambjóðendur. Það er dýrt og ekki auðvelt að ná athygli fólks,“ segir Andrés í samtali við mbl.is.

Fjölmiðlar meti hvað eigi erindi við lesendur

Hann segir það engu að síður hlutverk fjölmiðla með framboðsfréttir, rétt eins og aðrar fréttir, að meta að hverju sinni hvað eigi erindi við lesendur.

Það byggist jú fyrst og fremst á áhuga lesenda og áhorfenda enda sé það ekkert leyndarmál að fréttir á netmiðlum hangi lengur á forsíðu eftir því hversu vinsælar þær séu. Þó séu vissulega önnur atriði sem spili inn í.

„Það fer eftir ýmsu, eins og ritstjórnarstefnu og það eru ólíkir fjölmiðlar og þeir sýna bæði ólíkum frambjóðendum athygli og ólíkum þáttum kosningabaráttunnar mismikla athygli,“ segir Andrés en bætir þó við að auðvitað starfi fjölbreytt fólk innan þeirra og ekki allir sömu skoðunar þó þeir starfi fyrir sama miðil. 

Mælir ekki með að efna til ófriðar við fjölmiðla

Hann kveðst þó ekki gefa mikið fyrir umkvartanir um takmarkaða athygli sumra frambjóðenda. Það sé að hans mati hin hliðin á Er þetta frétt? umræðunni og stundum fái kvartið jafnvel meiri athygli.

Sumir frambjóðendur geti jafnvel átt það til að nota þann tíma sem þeir fái til þess að kvarta yfir því að þeir hljóti ekki næga athygli, frekar en að nota tækifærið vel.

„Ég mæli ekki með því við frambjóðendur. Það hefur stundum verið sagt Ekki efna til ófriðar við þá sem kaupa blek í tunnuvís, sem er gamalt orðatiltæki varðandi það að efna til ófriðar við fjölmiðlasegir Andrés. 

Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta.
Andrés Jónsson almannatengill og eigandi Góðra samskipta. mbl.is/Styrmir Kári

Uppgengi Höllu sýni að lesendur stýri umfjöllun

Segir Andrés uppgengi Höllu Hrundar sýna fram á að vinsældirnar komi ekki einungis af fjölmiðlaumfjöllun.

„Hún var ekki tekin alvarlega þarna strax eftir framboðið sitt, að því að það voru ekkert allir sem spáðu því að hún myndi sækja mikið fylgi. Svo er greinilega þessi meðbyr með henni og þá er fólk forvitið um hana og eðlilegt að fjölmiðlar reyni að svara forvitni lesenda.“

Nefnir Andrés einnig það augljósa að svo sé fólk jú misgott að vekja athygli á sér. En spurður hvort von sé á að frambjóðendur muni grípa til allskyns ráða til að vekja athygli landans á sér svarar hann játandi.

„Fjölmiðlar hafa nýtt sér það í aðdraganda kosninga að fólk sé að keppa um athyglina og fengið fólk til að drekka ógeðsdrykki og gefa pítsum einkunn og taka þátt í einhverju svona sprelli. Þannig jú ég held að fólk muni gera ýmislegt til að koma sér í fréttir,“ segir Andrés.

Ekki réttlætanlegt að fólk fái jafnan tíma

Hann telur þó nokkurn vanda á höndum fjölmiðla, þá sérstaklega Ríkisútvarpsins enda þurfi þeir að ákveða hvort allir ellefu frambjóðendur muni koma fram í sama þættinum eða hvort þeir geti skipt þeim niður í tvö holl. 

Sjálfur myndi hann færa rök fyrir því að frambjóðandi þyrfti að mælast með yfir 2% fylgi í einhvern tíma til að fara í þáttinn. Hann efist þó um að RÚV þori að setja skorður um slíkt enda viti hann ekki hver túlkunin sé á lögbundnu hlutverki þeirra í kosningunum.

„En eins og Ólafur Þ. Harðarson hefur bent á að þá er fólk sem hefur náð lágmarkinu til að bjóða sig fram en hefur bara fengið 300 atkvæði í sjálfum forsetakosningum. Það réttlætir ekki að þú fáir jafnan tíma á við einhvern sem á möguleika á því að vera forseti,“ segir Andrés.

Ákveðinn línudans

Spurður hvað hann telji bestu leiðina til að vekja athygli á sér í framboði segir Andrés erfitt að svara því enda sé forsetaframboð ákveðin línudans, það geti fjarað undan fólkinu í toppsætunum ef það segi of lítið en þeir frambjóðendur sem mælist lágt þurfi að berjast fyrir því að vera partur af samtalinu og geti því stundum leyft sér að segja djarfari hluti.

Einnig þurfi frambjóðendur að vera meðvitaðir um hver sagan um framboð þeirra sé og tekur Andrés þar framboð Katrínar Jakobsdóttur sem dæmi. 

„Nú er t.d. búin vera mikil umfjöllun um ris Höllu Hrundar og ef að Katrín heldur áfram að lækka þá verður það sagan um hennar framboð.“

Baldur sé um þessar mundir að lenda í spurningum sem sumum þyki jafnvel ósanngjarnar, en sé að forðast að svara þeim beint. Það geti einnig orðið einkennandi fyrir hans framboð haldi hann því áfram.

Á hin bóginn sé Jón Gnarr afar yfirlýsingaglaður sem geti ýmist verið honum til framdráttar eða að falli eftir því hversu vel það falli í kramið hjá fólki. Fylgi hans sé því sveiflukennt eftir því.

Gagnrýni tvíeggja sverð

Spurður hvernig gagnrýni í garð annarra frambjóðenda falli í kramið hjá kjósendum segir Andrés það tvíeggja sverð. 

Rannsóknir hafi vissulega sýnt fram á að árásir á andstæðinga beri árangur - að því leyti að hann missi fylgi. Í sömu andrá slettist þó oftast einnig á þann sem gagnrýni enda þyki ekki öllum góður þokki af slíku. Flest framboðin reyni því yfirleitt að þvo hendur sínar af gagnrýni og láti þriðja aðila sjá um óþrifaverkin.

„Davíð Oddsson dalaði svolítið þegar hann fór að gagnrýna Guðna hart og Guðni dalaði líka 2016. Herdís Þorgeirsdóttir gagnrýndi Þóru hart í kosningunum 2012. Þóra skaðaðist en Herdís græddi ekki á því,“ segir Andrés.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert