Hafa útskrifað 36 og markmiði Landspítala því náð

Mynd frá framkvæmdum við Landspítala.
Mynd frá framkvæmdum við Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

30 einstaklingar, einkum aldraðir, hafa verið útskrifaðir af Landspítala í önnur úrræði á síðastliðnum þremur vikum. Það hefði ekki verið hægt nema vegna samstarfs heilbrigðisráðuneytisins og Landspítala sem leituðu til rekstraraðila hjúkrunarheimila á og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, að því er fram kemur í skriflegu svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

Einnig hefur með heimahjúkrun og heimaþjónustu sem markvisst hefur verið aukin á höfuðborgarsvæðinu til að mæta útskriftarvanda Landspítala, tekist að útskrifa um 6 sjúklinga af spítalanum sem geta búið heima með mikilli þjónustu. Þannig hefur settu markmiði Landspítala hvað þetta varðar í raun verið náð,“ segir í svarinu. 

Hið setta markmið tengist þriðju bylgju Covid-19 faraldursins en Landspítali lagði áherslu á að rýma þyrfti 35 sjúkrarými þar sem fyrir voru einstaklingar sem lokið höfðu meðferð og þurftu önnur úrræði.

Fjögur erindi borist ráðuneytinu

Eins og mbl.is hefur greint frá á síðustu dögum hafa einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu boðið út hjálparhönd að undanförnu við að leysa svokallaðan fráflæðisvanda Landspítala. Hann felst í því að einstaklingar eru inniliggjandi á Landspítala sem eru með gilt færni- og hæfnismat. Í einfölduðu máli eru þeir því nægilega frískir til að vera útskrifaðir af spítalanum en þar sem hjúkrunarrými skortir er ekki hægt að útskrifa þá. 

Þannig hefur Heilsuvernd boðið Sjúkratryggingum Íslands 100 hjúkrunar- og endurhæfingarrými og Sól­tún öldrun­arþjón­usta boðist til að reka Odds­son hót­el sem tíma­bundna hjúkr­un­araðstöðu fyr­ir aldraða.

„Heilsuvernd og Sóltún hafa að eigin frumkvæði sent ráðuneytinu/Sjúkratryggingum Íslands erindi þar sem boðinn er fram rekstur viðbótarhjúkrunarrýma. Tvö önnur erindi hafa borist ráðuneytinu, annað óformlega í gegnum Landspítala og hitt erindið í gegnum fjármálaráðuneytið. Í báðum tilvikum er verið að bjóða fram hótelrými undir rekstur hjúkrunarheimila í tiltekinn tíma. Ekki er útilokað að Sjúkratryggingum Íslands hafi borist erindi þessu til viðbótar,“ segir í svari ráðuneytisins. 

Ekki hægt að semja fyrirvaralaust

Í fyrirspurninni var spurt um það hvers vegna væri ekki gengið til samninga strax við þá aðila sem hafa boðið fram hjálp sína til að létta á Landspítala. 

Í svarinu segir að ráðuneytið hyggist hraða umfjöllun um þessi erindi eins og kostur er til að kanna hvort og hversu raunhæf þau eru.

„Rekstur hjúkrunarrýma snýst um þjónustu við veika, oftast aldraða einstaklinga sem þurfa hjúkrun, læknisþjónustu og mikla umönnun. Þetta gerir margvíslegar kröfur, m.a. til húsnæðisins þar sem þjónustan er veitt. Meðal þess sem skoða þarf er hvort bjóðendur séu færir um að sinna verkefni sem þessu í samræmi við kröfur gerðar eru um svo viðkvæma þjónustu.  Annað sem er til skoðunar eru heimildir hins opinbera til að ganga beint til samninga við viðkomandi aðila með hliðsjón af VIII. kafla laga um opinber innkaup. Ef unnt er að ganga til samninga við einhvern bjóðanda/bjóðendur eru það Sjúkratryggingar Íslands sem skulu annast samningsgerðina samkvæmt lögum, í umboði ráðuneytisins. Þá þarf að liggja fyrir að unnt sé að fjármagna verkefnið innan ramma heimilda fjárveitingarvaldsins,“ segir í svarinu. 

„Eins og fram er komið er ekki hægt að semja beint við bjóðendur fyrirvaralaust, fara þarf að lögum og reglum sem m.a. er ætlað tryggja jafnræði, gagnsæi og vandaða málsmeðferð.  Ennfremur þarf að leysa úr mörgum atriðum og meta fýsileika boðanna og hvort þau séu raunhæf og framkvæmanleg. Reynist svo vera og fjármögnun er fyrir hendi væri hægt  að ganga til samninga.“

200 ný hjúkrunarrými í Reykjavík 2021/22

Samkvæmt framkvæmdaráætlun til ársins 2024 er unnið að uppbyggingu hjúkrunarrýma um allt land.

„Á þessu ári var opnað 99 manna hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík. Ef aðeins er horft er til höfuðborgarsvæðisins og nálægra sveitarfélaga er áætlað að hjúkrunarrýmum fjölgi 2021/22 um 33 í Hafnarfirði, 25 í Árborg + 4 í Hveragerði, árið 2023 um 64 í Kópavogi og 30 í Reykjanesbæ, árið 2024 um 44 í Mosfellsbæ og 2025 um 200 í Reykjavík,“ segir í svarinu.

Þá er einnig markvisst unnið að verkefnum til að gera öldruðum kleift að búa lengur heima og draga þannig úr þörf fyrir hjúkrunarrými.

„Fjölgun sérhæfðra dagdvalarrýma er mikilvægur liður í því ásamt eflingu heimahjúkrunar sem hefur verið stóraukin, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, síðustu misseri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert