Vísaði í þunga dóma varðandi kröfu um refsingu

Steina mætir fyrir héraðsdóm í gær.
Steina mætir fyrir héraðsdóm í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Saksóknari í máli gegn hjúkrunarfræðingi sem ákærður er fyrir manndráp tiltók ekki sérstaklega hvað farið væri fram á langan dóm, en fór fram á að sakfellt yrði fyrir manndráp af beinum ásetningi eða manndráp á lægsta stigi ásetnings. Þá vísaði saksóknarinn, Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, til eldri dómsmála þar sem sakborningar hlutu 14 ára og 16 ára dóma. Þetta kom fram í málflutningi Dagmarar á þriðja og síðasta degi aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Vísaði í Rauðagerðismálið

Ákæruvaldið hefur ákært Steinu Árnadóttur hjúkrunarfræðing fyrir ásetningsbrot eða manndráp í opinberu starfi. Vitnaleiðslum lauk fyrir hádegi, en þá tók málflutningur saksóknara við. Dagmar sagði að ákæruvaldið hygðist ekki fara fram á tiltekna refsingu heldur leggi það í mat dómsins hver refsingin skuli vera.

Saksóknari gaf dæmi um önnur mál, þar á meðal mál frá 2020, þar sem ákærði var dæmdur fyrir ásetning á lægsta stigi og hlaut 14 ára fangelsi. Einnig tók hún sem dæmi Rauðagerðismálið svokallaða, þar sem ákærði var dæmdur í 16 ára fangelsi í héraðsdómi fyrir manndráp af beinum ásetningi. 

Fjögur ágreiningsmál

Saksóknari tók saman fjögur ágreiningsmál ákærunnar en þau eru aðdragandi atviksins, hvort stóð í sjúklingnum, hvort Steina hafi gefið sjúklingi sopa eða þvingað drykkinn ofan í hana og dánarorsök hennar.

Gerði hún samantekt á vitnisburði og færði rök fyrir því að Steina hefði verið pirruð yfir undirmönnun, óreyndu samstarfsfólki sínu og þungu hjúkrunarstigi á deildinni og tekið það út á sjúklingnum með því að hella drykknum í munn hans.

Samstarfskonur hennar og sjúklingurinn hafi ítrekað gefið til kynna og sagt að sjúklingurinn vildi ekki drykkinn en Steina hafi látið það sem vind um eyru þjóta og ákveðið að halda áfram að hella drykkjunum í munn sjúklingsins, eftir að hún hafði losað um matarbita sem stóð í konunni.

Krufning bendi sterklega til þess að dánarorsök hafi verið köfnun vegna næringardrykkjarins, að mati réttarlækna sem unnu að krufningarskýrslu, en ekki köfnun vegna grænmetisbita eða klósópíneitrun. 

Fer fram á 14,5 milljónir til dánarbúsins

Lögmaður bótakrefjanda, sem er móðir sjúklingsins, fer fram á að Steinu verði gert að greiða 14.5 milljónir auk vaxta til dánarbúsins. Einnig verði henni gert að greiða útfararkostnað auk vaxta og greiða dánarbúinu málskostnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert