Borgin skoðar „örflæðisstæði“

Rafskútur hafa breytt ferðavenjum fjölmargra undanfarin misseri.
Rafskútur hafa breytt ferðavenjum fjölmargra undanfarin misseri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú er ríflega mánuður liðinn frá því að fjöldi rafskúta til leigu í miðborginni ríflega tvöfaldaðist. Í það minnsta 50.000 ferðir eru nú farnar á leiguskútum í mánuði og til að bregðast við þessari öru þróun er nú skoðað að merkja sérstök „örflæðisstæði“ sem myndu skipuleggja flæði skútanna betur. 

Þetta kemur fram í svari Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, formanns Skipulags og samgönguráðs borgarinnar, við fyrirspurn um reynsluna sem hefur myndast frá því að skútunum fjölgaði.

„Reynslan hefur verið góð hingað til,“ segir Sigurborg en samskipti borgarinnar við rekstraraðila eru töluverð og þurfa leigurnar til að mynda að skila tölum inn mánaðarlega um hvort leigan standist kröfu borgarinnar um notkun sem er tvær ferðir á hvert hjál hjól á dag. Þá eru rekstraraðilar látnir vita daglega um hvar og hvenær hverfi séu þrifin svo hægt sé að fjarlægja skúturnar þaðan.

Um örflæðisstæðin segir hún að hugmyndin sé að koma til móts við vaxandi fjölda þeirra sem kjósa að þjóta um á rafskútum „Það er öllum til bóta ef hjólin standa þétt saman frekar en dreift um ákveðin svæði eins og torg. Einnig þurfa þá þjónustuaðilar ekki að ferðast eins mikið til að skipta um batterí og gætu þeir t.d. útbúið hvatakerfi fyrir notendur sem skila hjólunum á umræddum svæðum. En þessi vinna er tiltölulega nýhafin,“ segir Sigurborg í svari sínu.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs.

Fjöldi ábendinga vegna rafskúta ekki hár

Þegar skútunum fjölgaði bar aðeins á óánægju fólks með staðsetningar þeirra á gangstéttum eftir að notkun lauk. Það virðist vera komið í betra horf og að sögn Sigurborgar er reynsla borgarinnar að þjónustuaðilarnir sé til fyrirmyndar þegar þeir koma hjólum fyrir í borgarlandinu.

„Það eru a.m.k. 50.000 ferðir farnar á mánuði en án þess að hafa tekið það sérstaklega saman, þá er fjöldi ábendinga sem hafa borist ekki hár. Mögulega hafa hjólaleigurnar fengið fleiri ábendingar, en það er upplifun Reykjavíkurborgar að þessari nýjung sé afskaplega vel tekið af borgarbúum.“

Áhersla er lögð á að halda vel utan um reksturinn á þessum nýja ferðamáta. Skilmálar borgarinnar fyrir rekstraleyfum kveða því á um skyldu leiganna til að: taka úr umferð ónýt eða biluð hjól, flytja hjól sem hindra almenna umferð eða valda óþægindum, fjarlægja hjól sem hafa lent á óæskilegum stöðum, bannsvæðum og fjarlægja hjól af svæðum þegar hreinsun gatna og stíga fer fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert