„Þetta eru dugnaðarstelpur sem hlaupa, hlaupa og hlaupa“

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA, á hliðarlínunni í Boganum í …
Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA, á hliðarlínunni í Boganum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA í Pepsi-Max deild kvenna í knattspyrnu, var fenginn í stutt viðtal eftir að hans lið hafði tapað 2:0 fyrir sprækum Selfyssingum í kvöld í jöfnum leik. 

Nú eru tvær umferðir búnar. Þið fóruð til Eyja og unnuð ÍBV. Þær vinna svo Breiðablik sem slátraði Fylki í fyrsta leik. Nú mættuð þið Selfyssingum í jöfnum leik og töpuðuð. Hvernig verður þetta sumar eiginlega? 

„Það kæmi mér ekkert á óvart ef lið væru að vinna hvert annað alveg hægri vinstri og að mótið yrði jafnt. Ég ætla samt að spá því að það verði tvö eða þrjú lið sem verða að berjast um toppsætið. Miðað við byrjunina á mótinu þá  verður það mjög skemmtilegt en jafnframt krefjandi og erfitt.“ 

Liðið hjá þér er ómótað. Það vantar sterka pósta og svo eru útlendingarnir þrír að koma sér inn í málin. Yngri og óreyndari leikmenn eru í flestum stöðum og eru að standa sig vel. Hvað viltu segja um þennan leik? 

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn mjög góður hjá okkur. Við höfum sjaldan náð svona góðu spili á móti jafn sterku liði og Selfoss er. Mér fannst við vera að spila mjög vel og það var svekkjandi að vera undir í hálfleik. Seinna markið var hreinlega bara gjöf til þeirra. Það hefði verið gaman að fara inn í lokakaflann aðeins einu marki undir. Þá hefði verið lag á að gera eitthvað og láta Selfyssinga skjálfa aðeins. Ég er ótrúlega stoltur af stelpunum. Þetta eru dugnaðarstelpur sem hlaupa, hlaupa og hlaupa allan tímann. Við erum að hnoða saman lið. Við fengum útlendingana seinna heldur en við vildum. Þær eru bara að drilla sig inn í liðið og komast í leikform. Svo eigum við Örnu Sif og Margréti inni. Arna lenti á landinu í dag og verður til taks eftir viku. Margrét verður svo vonandi klár um mánaðarmótin. Við eigum alveg eitthvað inni, líka í spilamennskunni. 

Þú ert með nokkra leikmenn sem hafa fengið meistaraflokksreynslu í neðri deildunum með Hömrunum. Finnst þér það vera að skila sér í þetta lið? 

„Ekki spurning. Það skiptir rosalega miklu máli fyrir ungar stelpur að fá fullorðinsleiki. Allar þær mínútur sem þær fengu þar gera þær tilbúnari fyrir þessa deild. Þetta er risastökk en það er líka fullt af góðum liðum og leikmönnum í hinum deildunum. Að sama skapi langar mig til að hrósa bæði KA og Þór fyrir það hvernig félögin eru að halda utan um boltann hjá stelpunum. Það er að skila sér upp í þetta lið og vonandi áfram, frábærum og bráðefnilegum stelpum. Það er okkar þjálfaranna að sjá til þess að þeim líði vel, fái mínútur og haldi áfram að gera góða hluti“ sagði Andri Hjörvar að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert