Þægilegur heimasigur í Breiðholtinu

Stjörnumaðurinn Casper Sloth skýtur að marki Leiknis í kvöld. Emil …
Stjörnumaðurinn Casper Sloth skýtur að marki Leiknis í kvöld. Emil Berger er til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

Leiknismenn höfðu betur á móti Stjörnumönnum 2:0 í 13. umferð úrvalsdeildar karla í kvöld. Bæði mörk heimamanna komu i fyrri hálfleik.

Leikurinn var nokkuð jafn á fyrstu mínútunum meðan liðin voru að fóta sig, og fengu Stjörnumenn fyrstu færi leiksins.  Það var hins vegar Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknismanna, sem náði að skora fyrsta markið strax á 6. mínútu, eftir að Andrés Manga Escobar, kantmaðurinn snöggi átti fína fyrirgjöf inn í teiginn. Þar var Sævar Atli réttur maður á réttum stað, og skoraði þar með sitt tíunda mark í sumar.

Stjörnumenn áttu nokkra fína spilkafla eftir markið, en það vantaði hins vegar herslumuninn á að þeir sköpuðu sér færi. Á sama tíma áttu Leiknismenn einnig mjög fínar sóknir, og náði Hjalti Sigurðsson, sem kom nýlega til liðsins frá KR, að bæta við öðru marki Leiknis á 27. mínútu með laglegum skalla sem rataði fram hjá Haraldi Björnssyni í markinu. 

Leiknismenn héldu sig eftir seinna markið til baka og treystu á skyndisóknir til þess að refsa Stjörnunni enn frekar. Á 40. mínútu urðu heimamenn hins vegar fyrir nokkru áfalli þegar Andrés Manga Escobar, sem hafði verið líflegur allan leikinn virtist togna í læri eftir eina slíka skyndisókn, en Árni Elfar Árnason náði að fylla hans skarð vel. 

Seinni hálfleikurinn var næsta tíðindalítill miðað við þann fyrri, þar sem Stjörnumenn voru meira með boltann en þeim gekk lítt áleiðis gegn vel skipulögðu liði Leiknis. Helst var það hinn ungi Eggert Aron Guðmundsson, sem kom inn á 62. mínútu sem náði að lífga ögn upp á sóknarleik gestanna. Leiknismenn áttu þó fínar skyndisóknir, og þurfti Daníel Laxdal í tví- eða þrígang að hlaupa uppi sóknarmann Leiknis sem var við að komast í færi. 

Besta færi Stjörnunnar kom hins vegar á 94. mínútu, en Eggert Aron hafði þá hlaupið hratt fram með boltann og skilað honum af sér á Oliver Hauritz, sem einnig kom inn á sem varamaður. Skot Olivers var hins vegar beint á Guy Smit, markmann Leiknis. Nær komust gestirnir ekki, og sanngjarn sigur Leiknismanna í höfn.

Það er erfitt að gera upp á milli manna í Leiknisliðinu, þar sem sterk liðsheild og baráttuandi skópu fremur þægilegan heimasigur. Stjörnumenn þurfa hins vegar að leggjast vel yfir það sem fór úrskeiðis í þessum leik og gera betur, ef ekki á illa að fara í haust. 

Leiknir R. 2:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Hér verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert