Beint: Ágústa og Margrét hefja leik á Imola

Margrét hefur leik á heimsmeistaramótinu rétt rúmlega 12:40 í dag.
Margrét hefur leik á heimsmeistaramótinu rétt rúmlega 12:40 í dag. Ljósmynd/Hörður Ragnarsson

Heimsmeistaramótið í götuhjólreiðum hefst í dag í Imola á Ítalíu, en það mun teygja sig fram á sunnudag. Fimm íslenskir keppendur eru skráðir til leiks og strax í dag klukkan 12:40 mun fyrsti íslenski keppandinn leggja af stað.

Keppt er í svokallaðri tímatöku í dag og á morgun, en þar er einn ræstur í einu og keppir við klukkuna. Á laugardag og sunnudag fara svo fram hefðbundin götuhjólreiðamót, en þá ræsir einn stór hópur saman og keppnin gengur út á sæti frekar en einstaka tíma.

Ágústa Edda Björnsdóttir er núverandi bikar- og Íslandsmeistari í tímatöku.
Ágústa Edda Björnsdóttir er núverandi bikar- og Íslandsmeistari í tímatöku. Ljósmynd/Hörður Ragnarsson

Í dag eru það Margrét Pálsdóttir úr Breiðablik og Ágústa Edda Björnsdóttir úr Tindi sem ræsa í tímatökunni. Margrét verður ræst klukkan 12:41:30, en Ágústa Edda klukkan 13:11:30. Er Ágústa núverandi Íslands- og bikarmeistari í greininni.

Hægt verður að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu í spilaranum hér fyrir neðan.

Keppa þær á móti nokkrum af bestu hjólreiðakonum heims, meðal annars þeim Önnu van der Breggen og Chloe Dygert. Hjóluð er 31,7 km löng braut, þar sem meðal annars er komið inn á hina sögufrægu Imola kappakstursbraut, sem meðal annars er notuð í Formúlu 1.

Farið er nánar yfir brautina sem bíður íslensku keppendanna og mótherja í umfjöllun Hjólafrétta. 

Á morgun fer svo fram tímataka karla og þar mun Ingvar Ómarsson úr Breiðablik taka þátt, en hann er Íslandsmeistari í greininni.

Á laugardaginn er svo götuhjólamót kvenna og mætir Ágústa þar aftur til leiks, en auk hennar verða þær Hafdís Sigurðardóttir frá HFA og Bríet Kristý Gunnarsdóttir úr Tindi á ráslínunni. Hefst sú keppni klukkan 10:35 að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka