NRA óskar eftir greiðslustöðvun

Samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum voru stofnðuð í New York árið …
Samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum voru stofnðuð í New York árið 1871. AFP

Samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum, NRA, hafa óskað eftir greiðslustöðvun í samræmi við 11. kafla bandarískra gjaldþrotalaga (e. Chapter 11) fyrir dómstóli í Dallas. Samtökin tilkynntu einnig í gær, föstudag, að þau hygðust flytja starfsemi sína frá New York-ríki til Texas.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að með ákvörðuninni að óska eftir greiðslustöðvun og flytja til Texas séu samtökin, sem voru stofnuð í New York árið 1871, að tryggja að framtíð þess verði „frjáls frá eitruðu stjórnmálaumhverfi New York-ríkis”.

Í ágúst voru samtökin, sem og framkvæmdastjóri þeirra, Wayne LaPierre, kærð fyrir fjármálamisferli í New York-ríki. Í ákærunni kemur fram að LaPierre hafi notað sjóði samtakanna til að greiða fyrir einkaþotur og lúxusfrí með fjölskyldu sinni. Þá er LaPierre einnig sakaður um að hafa gefið sjálfum sér 17 milljóna dollara eftirlaunasamning án samþykkis stjórnar samtakanna.

NRA hefur í áratugi barist gegn hertri skotvopnalöggjöf, með talsverðum árangri, og hefur gjarnan haft víðtæk áhrif á kosningar í Bandaríkjunum.

Uppfært 13:35

Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að NRA hafi lýst yfir gjaldþroti, en rétt er að samtökin óskuðu eftir greiðslustöðvun í samræmi við 11. kafla bandarískra gjaldþrotalaga. Þetta hefur verið leiðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert