Vara við málmflísum í hundanammi úr Costco

Matvælastofnun varar við málflísum í hundanammi sem Costco flytur inn …
Matvælastofnun varar við málflísum í hundanammi sem Costco flytur inn og selur í verslun sinni. Mynd/Matvælastofnun

Costco hefur eftir ítrekun frá Matvælastofnun (MAST) orðið við kröfu stofnunarinnar um að stöðva sölu á ákveðinni tegund af hundanammi, en hefur ekki orðið við beiðni um að innkalla vöruna í kjölfar þess að kaupandi fann málmflísar í hundanamminu.

Í tilkynningu á vef sínum varar MAST við tiltekinni lotu af hundanamminu Super foods for dogs: Chicken treats with sweet potato, carrot & pumpkin frá Irish Dog Food vegna málsins, en Costco flytur vöruna inn og selur í verslun sinni.

„Matvælastofnun gerði kröfu um sölustöðvun og innköllun. Eftir ítrekun hefur Costco nú tekið vöruna úr sölu en ekki innkallað vöruna frá kaupendum skv. upplýsingum stofnunarinnar,“ segir í tilkyningunni.

Bendir stofnunin á að málmflísar geta valdið skaða í meltingarfærum dýra og telur MAST því ekki nóg að stöðva sölu og segja mikilvægt að upplýsa kaupendur. Hundaeigendur sem keypt hafa hundanammið úr framleiðslulotu J320311 eru hvattir til að nota það ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert