Tilnefningarnefnd Festi hefur tilnefnt níu í stjórn félagsins fyrir komandi hluthafafund, þar á meðal alla sitjandi stjórnarmenn. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að alls hafi borist 21 framboð, þar á meðal framboð sitjandi stjórnarmanna.

Festi boðaði stjórnarkjör þann 16. júní í kjölfar gagnrýni um hvernig staðið var að uppsögn Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra.

Sjá einnig: Festi boðar stjórnarkjör

„Vöxtur og viðgangur Festi er mikilvægari en einstaka stjórnendur þess eða stjórn. Það er ósk stjórnar að boðaður hluthafafundur megi verða til þess að sætta ólík sjónarmið svo unnt sé að halda áfram þeirri vegferð sem fyrir höndum er og skipan nýs forstjóra er órjúfanlegur hluti af,“ kom fram í yfirlýsingu stjórnarinnar við boðun fundarins sem fer fram 14. júlí næstkomandi.

Í stjórn Festi sitja Guðjón Reynisson, Margrét Guðmundsdóttir, Þórey G. Guðmundsdóttir, Ástvaldur Jóhannsson og Sigrún Hjartardóttir en síðastnefndu tvö voru kjörin í stjórnina á aðalfundi félagsins í vor.

Auk þeirra hefur tilnefningarnefnd Festi tilnefnt Björgólf Jóhannsson, fyrrum forstjóra Icelandair, Magnús Júlíusson, aðstoðarmann Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og stofnanda Íslenskrar orkumiðlunar, Sigurlínu Ingvarsdóttur, sjálfstæðs ráðgjafa og fjárfesti hjá sjóðnum Behold VC sem fjárfestir í tölvuleikjafyrirtækjum á Norðurlöndunum, og Þórdísi Jónu Sigurðardóttur, fyrrum framkvæmdastjóra hjá Stoðum Invest sem starfar í dag sem fjárfestir og ráðgjafi.

Nefndin segir að sumir af ofangreindum fjórum nýju frambjóðendunum hafi haft stuðning einstakra hluthafa.

Einnig kemur fram að tveir aðrir frambjóðendur hafi verið í hópi hæfustu frambjóðenda. Eftir sérfræðiaðstoð frá lögmönnum festi, sem lögðu mat á hagsmunaárekstra, komu þeir ekki til greina.

Eftirfarandi er listi yfir þá sem eru tilnefndir eru í stjórnina:

  • Ástvaldur Jóhannsson, sitjandi stjórnarmaður
  • Björgólfur Jóhannsson
  • Guðjón Reynisson, stjórnarformaður
  • Magnús Júlíusson
  • Margrét Guðmundsdóttir, varaformaður stjórnar
  • Sigurlína Ingvarsdóttir
  • Sigrún Hjartardóttir, sitjandi stjórnarmaður
  • Þórdís Jóna Sigurðardóttir
  • Þórey G. Guðmundsdóttir, sitjandi stjórnarmaður

„Það er álit okkar að ofangreindir frambjóðendur séu allir hæfir. Úr þeirra hópi má mynda samhenta stjórn til að leiða félagið og leysa farsællega þær áskoranir sem framundan eru. Greið leið er jafnframt fyrir fleiri frambjóðendur að gefa kost á sér áður en endanlegur frestur rennur út að morgni 9. júlí nk.,“ segir í skýrslunni.

„Stjórninni ber að gæta hags félagsins og allra hluthafa og fylgja góðum stjórnarháttum. Hver sem niðurstaða hluthafafundarins verður, er rétt að minna á, að stjórn í framsæknu fyrirtæki, sem iðulega stendur frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, verður að hafa sjálfstraust og áræði. Ekki dugar að velja til stjórnarstarfa aðeins þá einstaklinga sem ekki hafa tekist á við erfið mál eða styr staðið um.“

Opin kosning varð fyrir valinu

Tilnefningarnefndin segist hafa íhugað að leggja fram tillögu um stjórn sem sameinaði sjónarmið helstu hluthafa sem yrði þá „nokkurs konur lending í málinu“.

„Þegar grannt var skoðað mátti sjá að áherslur í hópi hluthafa, bæði lífeyrissjóða og einkafjárfesta, stönguðust svo mjög á að slík lending væri óraunhæf. Þá er lausnin einfaldlega opin kosning á hluthafafundi með sínum kostum og göllum.“

Í tilnefningarnefnd Festi eru Sigrún Ragna Ólafsdóttir og Tryggvi Pálsson. Fulltrúi stjórnar Festi í nefndinni er Margrét Guðmundsdóttir en hún tók ekki þátt í störfum nefndarinnar að þessu sinni. Sigrún Ragna er formaður nefndarinnar og Tryggvi ritari.

„Það er mat okkar óháðu nefndarmannanna að verði ekki brugðist við þeirri óánægju og óskum um breytingar sem hluthafar hafa lýst í viðræðum við okkur, þá sé viðbúið að málin verði áfram óútkljáð með tilheyrandi neikvæðni og óvissu fyrir félagið og að hún raungerist eigi síðar en á næsta aðalfundi. Það er óviðunandi staða fyrir Festi ekki síst í ljósi þess að framundan er að ráða nýjan forstjóra sem þarf að vinna þétt með stjórn félagsins til langs tíma litið,“ segir nefndin.