Sigur Íslands hræðilegur fyrir okkur

Henrik Möllgaard, til hægri, reynir að stöðva Elvar Ásgeirsson í …
Henrik Möllgaard, til hægri, reynir að stöðva Elvar Ásgeirsson í leik Íslands og Danmerkur. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Danir eru ekki ánægðir með sigur Íslendinga á Frökkum á Evrópumóti karla í handknattleik í Búdapest í gær.

Henrik Möllgaard, lykilmaður í varnarleik Dana, segir að sigur íslenska liðsins kom þeim afar illa.

„Þegar við horfum á þessi úrslit útfrá dönskum hagsmunum eru þau alveg hræðileg. Við hefðum viljað að Frakkar hefðu verið einfaldlega komnir áfram og þá hefði þetta verið einfalt," sagði Möllgaard við TV2 í Danmörku.

„En Íslendingar stóðu sig vel og maður fær ekkert ókeypis. Okkar bíða stór verkefni í hverjum leik og nú þurfum við að fá að minnsta kosti tvö stig í viðbót," sagði Möllgaard.

Danir eru með sex stig eftir þrjár umferðir í milliriðlinum, Íslendingar fjögur, Frakkar fjögur, Hollendingar tvö, Svartfellingar tvö og Króatar ekkert.

Í næstsíðustu umferðinni á morgun leikur Ísland við Króatíu, Danmörk við Holland og Frakkland við Svartfjallaland.

Í lokaumferðinni á miðvikudag leikur Ísland við Svartfjallaland, Holland við Króatíu og liks Danmörk við Frakkland.

Vinni íslenska liðið báða sína leiki verður leikur Dana og Frakka hreinn úrslitaleikur um hvort liðanna fari áfram í undanúrslitin með Íslandi, og Frakkar þyrftu þá að vinna stórsigur til að slá Danina út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert