Svarar oddvitanum fullum hálsi

Tómas Ellert Tómasson oddviti M-listans (t.v.) í Árborg var ekki …
Tómas Ellert Tómasson oddviti M-listans (t.v.) í Árborg var ekki sáttur með ummæli Ásgeirs Sveinssonar oddvita Sjálfstæðisflokksins (t.h.) í Mosfellsbæ. Samsett mynd

„Trúður með gyllta hálskeðju og trúður með enga hálskeðju verða alltaf trúðar í mínum augum,“ segir formaður bæjarráðs Árborgar og beinir orðum sínum að oddvita Sjálfstæðisflokks Mosfellsbæjar, sem hann telur hafa troðið nefi sínu þar sem það á ekki heima.

„Mind your own business!“ segir í yfirlýsingu sem formaðurinn sendi fyrr í dag.

Tilefnið er frétt sem birtist í gær vegna ummæla Ásgeirs Sveinssonar oddvita Sjálfstæðisflokks Mosfellsbæjar sem hann lét falla í kosningaþætti Dagmála.

Þar sagði Ásgeir að „allt væri á húrrandi hausnum í Árborg.“ Taldi hann sveitarfélagið ekki hafa tekist að byggja upp innviði til að bregðast við ört vaxandi fólksfjölda í Árborg.

Hvetur oddvitann að kynna sér samninga

Eins og kom í ljós hér að framan vandaði Tómas Ellert Tómasson, formaður bæjarráðs Árborgar, oddvita Sjálfstæðisflokksins ekki kveðjurnar.

„Ekki ætla ég að fara að rita hér einhverja langloku um skuldastöðu Árborgar sem svar við þessu gaspri, en bendi hér á eina ágæta grein sem rituð er af yfirvegun um stöðu fjármála Svf. Árborgar.“

Benti hann oddvitanum jafnframt á að kynna sér samninga við landeigendur og framkvæmdaaðila í Árborg. Þá væri einnig hægt að kynna sér ýmislegt talnaefni tengt rekstri sveitarfélaga á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem hægt væri að gera samanburð milli sveitarfélaga með einföldum hætti.

„Let them deny it, 101“

Tómas Ellert, sem er fyrrverandi Sjálfstæðismaður og núverandi oddviti M-lista Miðflokksins og sjálfstæðra, lét þó ekki staðar numið þar heldur gerði hann einnig vinnubrögð hins „Ný“ Sjálfstæðisflokks að umræðuefni sínu.

Segir hann fróðlegt að hafa fylgst með vinnubrögðum sinna gömlu félaga í Sjálfstæðisflokknum í þessari kosningabaráttu.

„[D]agskipunin er að endurtaka sömu lygina aftur og aftur í þeirri von um að einhverjir fari að trúa henni. Í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins nefnist námsáfanginn „Let them deny it, 101“ Aðferðinni hefur ítrekað verið beitt nú í aðdraganda sveitarstjórnarskosninganna hér í Árborg. 

Og svo nú með dyggri aðstoð oddvitans í Mosfellsbæ. Þeir eru reyndar fleiri utan Árborgar þykist ég vita sem taka þátt í leiknum, ég kannast við fingraförin. Næst þegar ég hitti ykkur kæru fyrrum félagar sem eruð með fingurnar á bólakafi í kosningabaráttunni í Árborg, mun ég knúsa ykkur og þakka ykkur fyrir að leyfa mér að takast á við aðferðafræðina sígildu. Og sigrast á henni!“

Eini sjálfstæðismaðurinn eftir í bæjarstjórn

Tómas yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn 14. október 2017, eða öfugt, eins og hann orðar þar, og gerðist hann stofnfélagi í Miðflokknum strax daginn eftir. Þar hefur hann fengið að starfa í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins – „frjáls og sjálfstæður frá hentistefnu „Ný Sjálfstæðisflokksins.“

Tómas Ellert var áður í Sjálfstæðisflokknum.
Tómas Ellert var áður í Sjálfstæðisflokknum. mbl.is/Sig. Jóns

„Gárungarnir í Árborg hafa svo sagt  mér að það sé bara einn sjálfstæðismaður í bæjarstjórn Árborgar sem starfar í anda grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi svo sannarlega sýnt það í verki sl. fjögur ár.

Maðurinn var bara ekki í Sjálfstæðisflokkum. Hann er í Miðflokknum! Hvernig skyldi standa á því? Jú það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur breyst í hentistefnuflokk á undanförnum árum og jafnvel áratugum.“

Spyr hvernig bregðast eigi við

Tómas Ellert segir hentistefnu flokksins hafa lagt þjóðina „fjárhagslega á hliðina“ og að ekki sé hægt að taka mark á flokknum þegar á reynir.

„Svo skilja flokksmenn ekkert í því af hverju fylgið hrynur vegna þess að flokkurinn iðkar ekki þá trú sem hann boðar. Svo einfalt er það. Hvað ætlið þið kæru fyrrum félagar mínir, þeir sjálfstæðismenn sem enn eru eftir í flokknum, að gera í því?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert