Myndskeið: Mætt með börnin á samstöðufund

„Þau eiga bara miklu betra skilið,“ sagði Þórdís Steinarsdóttir, móðir í Kópavogi, um leikskólastarfsmenn sem hófu verkfall í vikunni. Foreldrar í Kópavogi mættu á samstöðufund  með leikskólastarfsmönnum í röðum BSRB, fyrir utan bæjarskrifstofur Kópavogsbæjar í dag. 

Margir foreldrar mættu með ung börn á leikskólaaldri, en verkfallsaðgerðirnar ná til 60 leikskóla í 11 sveitarfélögum. Náist samningar ekki fyrir 5. júní munu enn fleiri starfsmenn hefja verkfall og verða þá um 2.500 talsins í 29 sveitarfélögum. 

Launin í engu samræmi við mikilvægi starfs

Hávær barnatónlist var spiluð á fundinum og dansað og leikið við börnin. Margir leikskólastarfsmenn í verkfallsvarðavestum voru einnig á staðnum og slógu hring í kring um börn og foreldra. 

Verina foreldri leikskólabarns í Kópavogi sagði samstöðu með leikskólastarfsfólki gríðarlega mikilvæga, enda laun þeirra í engu samræmi við mikilvægi starfs þeirra við að móta og annast framtíðar samfélagsþegna og skattgreiðendur.  

Annað foreldri leikskólabarns, Usman, kvaðst einnig vera komin til að sýna samtöðu með kennurum og gera ákall til sveitarfélaga um að sinna sinni skyldu gagnvart íbúum, sem væri jú að veita leikskólaþjónustu. 

„Við erum orðin ansi svartsýn“

Boðað var til fundarins með Facebook-viðburði og sögðu skipuleggjendur það mikilvægt að standa vörð um hagsmuni þeirra starfsmanna sem annist börnin þeirra. Að þeirra mati virðist lítill hugur hjá bæjarstjóra að leggja fram tillögur til lausna við verkfallinu. 

Ekki bólaði á neinum starfsmanni bæjarskrifstofunnar á meðan á fundinum stóð, en viðstaddir tóku þá til sinna ráða og héldu inn í skrifstofubygginguna. 

 Erla Ósk, leikskólastarfsmaður í verkfalli, kvaðst ánægð með fundinn og sagði hann sýna að foreldrar væru með þeim í liði. Hún kvaðst þó ekki bjartsýn varðandi kjaraviðræðurnar. 

Við vorum búin að vera með pínu sól í hjarta, en þetta ætlar eitthvað að verða erfitt. Við erum orðin ansi svartsýn okkur finnst þetta vera orðið ansi langt og leiðinlegt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert