Kósóvó fyrst Evrópuþjóða til að hreppa gull

Distria Krasniqi, til vinstri, og Funa Tonaki eftir úrslitaviðureign þeirra …
Distria Krasniqi, til vinstri, og Funa Tonaki eftir úrslitaviðureign þeirra í dag. AFP

Kósóvó varð í dag fyrst Evrópuþjóða til að hreppa gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Það var júdókonan Distria Krasniqi sem færði litla Balkanskagaríkinu góðmálminn eftirsótta þegar hún sigraði í -48 kg flokki. Krasniqi, sem er 25 ára gömul, vann hina japönsku Funu Tonaki í úrslitaglímunni og fylgdi með því eftir góðu gengi undanfarna átján mánuði þar sem hún hefur unnið fjögur stór alþjóðleg mót.

Þetta eru önnur gullverðlaunin í sögu Kósóvó á Ólympíuleikum. Landið fékk aðild að Alþjóðaólympíuhreyfingunni árið 2014 og keppti á sínum fyrstu leikum í Ríó árið 2016. Þar komu líka fyrstu gullverðlaunin og þá var líka júdókona á ferð en Majlinda Kelmendi sigraði þá í -52 kg flokki.

Distria Krasniqi með gullverðlaunin.
Distria Krasniqi með gullverðlaunin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert