Tíu ára bann fyrir að draga sig úr keppni

Fethi Nourine.
Fethi Nourine. Skjáskot

Júdókeppandinn Fethi Nourine frá Alsír hefur verið úrskurðaður í tíu ára bann af Alþjóða júdósambandinu eftir að hafa dregið sig úr keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó til þess að forðast það að mæta ísraelskum andstæðingi.

Þjálfari hans, Amar Benikhlef, var einnig úrskurðaður í tíu ára bann.

Nourine hafði sagt að stuðningur hans við réttindabaráttu Palestínu gerði honum það ómögulegt að keppa á leikunum.

Hann átti að hefja keppni gegn Mohamed Abdalrasool frá Súdan á leikunum í Tókýó og með sigri þar hefði hann mætt Ísraelanum Tohar Butbul í næstu umferð.

Alþjóða júdósambandið sagði í úrskurði sínum að Nourine og Benikhlef hefðu „með illum ásetningi notað Ólympíuleikana sem átyllu fyrir mótmæli og upphefð á áróðri af pólitískum og trúarlegum toga.“

Sambandið sagði þetta skýrt og alvarlegt brot á lögum og siðareglum þess og því sem Ólympíuleikarnir standa fyrir.

Þetta er í annað skiptið sem Nourine dregur sig úr keppni til þess að forðast það að mæta Ísraela. Það gerði hann einnig árið 2019 fyrir heimsmeistaramótið í júdó í Tókýó.

Bann Alþjóða júdósambandsins nær til allra viðburða á vegum þess og gildir til og með 23. júlí 2031, en Nourine er þrítugur að aldri.

Hann og Benikhlef geta áfrýjað dómnum til Alþjóða íþróttadómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert