Verðstríð skollið á á Akureyri

Verð á þremur bensínstöðvum á Akureyri hefur lækkað umtalsvert síðasta …
Verð á þremur bensínstöðvum á Akureyri hefur lækkað umtalsvert síðasta sólarhringinn. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Þrjár eldsneytisstöðvar hafa lækkað eldsneytisverð sitt á Akureyri á einum sólarhring og er það nú á pari við það sem hefur viðgengist á þeim eldsneytisstöðvum sem næst eru Costco á höfuðborgarsvæðinu, en á þeim stöðvum má finna lægsta eldsneytisverðið á stöðvum sem ekki krefjast áskriftagjalds.

Stöðvarnar sem um ræðir eru Atlantsolía við Baldursnes, Orkan á Mýrarvegi og ÓB við Hlíðarbraut. Er verðið á bensíni lægst hjá Orkunni, 185,4 krónur, en 185,5 krónur á hinum tveimur. Atlantsolía sendi frá sér tilkynningu í gær um verðlækkunina, en sem fyrr segir er verð allra þriggja stöðvanna nú á svipuðum stað.

Til samanburðar er almennt verð á bensíni hjá Orkunni á Hörgárbraut 215,6 krónur og hjá Atlantsolíu á Glerártorgi og ÓB á Sjafnargötu 215,7 krónur. Þá er lítraverð hjá  N1 á Akureyri 214,9 krónur.

Verð á dísil hefur einnig lækkað og er 181,4 krónur hjá Orkunni á Mýrarvegi og 181,5 krónur hjá Atlantsolía við Baldursnes og ÓB við Hlíðarbraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert