Smit á heilsugæslunni í Garðabæ

Heilsugæslan verður eftir sem áður opin, en nokkrir starfsmenn hafa …
Heilsugæslan verður eftir sem áður opin, en nokkrir starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsmaður heilsugæslunnar í Garðabæ hefur greinst með kórónuveiruna. Þetta staðfestir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is, en fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Smitið kom upp utan heilsugæslunnar, en Sigríður segir að það eigi við um öll þau smit sem hafa greinst hjá starfsmönnum heilsugæslunnar. „Við förum mjög stíft eftir sóttvarnareglum, notum grímur og virðum fjarlægðartakmörk.“

„Ef þú átt tíma þá geturðu mætt

Nokkrir starfsmenn þurfa engu að síður að fara í sóttkví og mun það hafa áhrif á starfsemi stöðvarinnar næstu vikuna. Aðspurð segir hún þó að ekki sé ástæða til að hvetja fólk til að fresta komum á heilsugæsluna. „Það er opið og við munum reyna að sinna starfsemi eins og mögulegt er. Margir eru þegar í heimavinnu og það verður enn meira um það núna,“ segir Sigríður.

Sem fyrr brýnir hún fyrir fólki sem er lasið eða finnur fyrir minnstu einkennum að mæta ekki á heilsugæslustöðina heldur hringja frekar á undan sér.

Um þessar mundir er mikið um árstíðarbundnar bólusetningar á heilsugæslustöðvum. Þær munu halda áfram. „Ef þú átt tíma þá geturðu mætt. Við förum eftir sótttvarnareglum og leggjum áherslu á stutt samskipti. Við hvetjum því fólk til að koma í þægilegum fötum svo það sé hægt að afgreiða bólusetninguna á sem stystum tíma,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert