Hafði ekki trú á henni eftir barnsburð

Dagný Brynjarsdóttir var í ítarlegu viðtali sem birtist á heimasíðu …
Dagný Brynjarsdóttir var í ítarlegu viðtali sem birtist á heimasíðu FIFA á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var erfitt fyrir mig persónulega því ég ætlaði mér ekki að verða ólétt,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu og West Ham á Englandi, í viðtali sem birtist á heimasíðu FIFA á dögunum.

Dagný, sem er þrítug, eignaðist sitt fyrsta barn í júní árið 2018 en hún var samningsbundinn Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni þegar hún varð ólétt.

Hún snéri svo heim tímabilið 2020 og lék með Selfossi í efstu deild áður en hún gekk til liðs við West Ham í ensku úrvalsdeildinni í janúar á þessu ári.

„Það eina sem ég hugsaði á meðgöngunni var hvenær ég kæmist aftur út á völlinn en um leið og ég fékk strákinn í hendurnar breyttist allt,“ sagði Dagný.

„Þá fyrst hugsaði ég hvort ég vildi í raun fara aftur út á völlinn því ég vildi vera með honum dag og nótt. Á sama tíma setti ég mér markmið á meðgöngunni sem ég vildi líka ná. Það er hins vegar mjög erfitt því eftir barnsburð þá byrjar maður bara á núllpunkti, sama hversu mikið maður æfði á meðgöngunni,“ sagði Dagný.

Í viðtalinu rifjaði Dagný meðal annars upp áhugavert atvik milli hennar og íslensks þjálfara sem virtist ekki hafa sömu trú á henni eftir að hún eignaðist son sinn.

„Ég man að einn þjálfari á Íslandi sagði við mig að ég væri ekki að fara spila bara af því að ég héti Dagný Brynjarsdóttir, eins og ég væri orðinn verri leikmaður eftir að ég varð móðir. 

Ég brosti bara til hans og sagði honum að bíða og sjá,“ sagði Dagný meðal annars en viðtalið má nálgast í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert