Gamla ljósmyndin: Þjálfari vekur athygli

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Á morgun verður tilkynnt hvaða konur sköruðu fram úr á árinu í sænsku knattspyrnunni og er Elísabet Gunnarsdóttir hjá Kristianstad tilnefnd sem besti þjálfarinn á verðlaunahátíð sænska knattspyrnusambandsins. 

Fyrir nítján árum birtist þessi mynd í Morgunblaðinu og tók fjóra dálka, eða 14. september árið 2001. Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson, Golli, sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áratugi. Við hliðina var fjögurra dálka grein um árangur 2. flokks Vals þar sem Elísabet hélt um stjórnartaumana. Liðið varð Íslandsmeistari í 2. flokki kvenna þriðja árið í röð og hafði leikið rúmlega þrjátíu leiki á Íslandsmótinu án taps. 

Elísabet var þá 25 ára gömul og í greininni kom fram að einhverja leikmenn í liðinu hefði hún þjálfað í átta ár. Elísabet var þarna farin að vekja athygli sem efnilegur þjálfari en um tveimur vikum eftir að greinin birtist fékk hún sitt fyrsta starf sem þjálfari meistaraflokks. Var hún þá ráðin þjálfari kvennaliðs ÍBV og tók við starfinu af Heimi nokkrum Hallgrímssyni. 

Í framhaldinu þjálfaði hún Breiðablik en sneri aftur til Vals til að þjálfa meistaraflokk kvenna árið 2003 og stýrði liðinu með frábærum árangri til ársins 2008. Árið 2008 var hún ráðin til Kristianstad og er þar enn. Elísabet hefur lyft Grettistaki hjá félaginu og er liðið á leið í Meistaradeild Evrópu í fyrsta skipti eins og fram kom í Morgunblaðinu á dögunum. 

Elísabet var valin þjálfari ársins í Svíþjóð árið 2017. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert