FH í undanúrslit – KA-menn úr leik

FH vann tveggja marka sigur í fyrsta leik.
FH vann tveggja marka sigur í fyrsta leik. mbl.is/Árni Sæberg

Karlalið FH í handbolta er komið í undanúrslit Íslandsmótsins eftir öruggan sigur á KA í dag. KA-menn eru komnir í sumarfrí. Leikurinn í dag var ansi sveiflukenndur. FH var með forustuna allan tímann en vann að lokum 25:19.

Leikurinn í dag fór fram á heimavelli KA en fyrri leikur liðanna var spilaður í Hafnarfirði á fimmtudag. Þá unnu FH-ingar nauman sigur, 30:28 og voru KA-menn því nokkuð brattir fyrir leikinn í dag.

FH byrjaði leikinn töluvert betur og leiddi frá byrjun. KA var að narta í hælana á þeim en í stöðunni 5:3 fyrir FH skiptu KA-menn yfir í sjö manna sóknarleik og má segja að sú ákvörðun hafi farið í vaskinn. Nokkrum mínútum síðar var staðan orðin 11:6 fyrir FH. Tók þá við besti kafli KA í leiknum. Þeir skiptu aftur yfir í sex manna sóknarleik og Bruno Bernat kom í markið hjá þeim. Tókst KA að velgja FH undir uggum og minnka muninn í 11:10 en síðan ekki söguna meir. KA skoraði ekki mark síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks og FH bætti aftur í forskot sitt. Daníel Freyr Andrésson lokaði bara markinu og varði hvað eftir annað frá KA-mönnum úr algjörum dauðafærum. Staðan var orðin 16:10 þegar flautað var til hálfleiks og virtist FH algjörlega með leikinn í sínum höndum.

KA-menn byrjuðu seinni hálfleik með miklum sóma og söxuðu á forkot FH-inga. Bruno Bernat varði allt sem á markið kom og allt í einu var staðan orðin 16:14. FH-ingum tókst loks að brjóta ísinn og þeir héldu tveggja til þriggja marka forskoti næstu mínúturnar. Síðasta kortérið hertu gestirnir svo tök sín á leiknum og hleyptu KA aldrei nærri. Lokatölur urðu 25:19 og eru FH-ingar verðskuldað komnir í undanúrslit.

Nú er að sjá hvort það verða Haukar eða ÍBV sem mæta FH í undanúrslitunum.

KA 19:25 FH opna loka
60. mín. Leik lokið Góður sigur hjá FH. Þessi sigur skilar þeim í undanúrslit. Nú er að sjá hvort það verði Haukar eða ÍBV sem þurfa að glíma við FH í næstu umferð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert