Myndband: Grikkir yfirgefa flóttafólk á hafi úti

Tólf manns voru yfirgefnir af grísku landhelgisgæslunni á hafi úti, …
Tólf manns voru yfirgefnir af grísku landhelgisgæslunni á hafi úti, á gúmmíbáti. Mynd úr safni. AFP

Grísk yfirvöld hafa verið harðlega gagnrýnd vegna myndbands sem sýnir grísku landhelgisgæsluna skila flóttafólki aftur á gúmmíbát og yfirgefa þau. Á meðal fólksins var sex mánaða gamalt ungabarn.  

Atvikið átti sér stað 11. apríl sl. á grísku eyjunni Lesbos, en hún er tíður komustaður flóttafólks sem leggur í hættulega för frá Tyrklandi til Evrópu. Fólkið á uppruna sinn að rekja til Sómalíu, Erítreu og Eþíópíu. 

Myndbandið var tekið upp af austurrískum aðgerðarsinna en birt af bandaríska miðlinum New York Times, sem hefur staðfest sanngildi þess.

Viltu á sér heimildir

Í myndbandinu má sjá starfsmenn landhelgisgæslunnar ferja tólf manns, þar á meðal ungabarn, frá eyjunni og skilja þau eftir á yfirgefnum gúmmíbát út á miðju hafi. Myndbandið sýnir síðar tyrknesku landhelgisgæsluna sækja fólkið, en blaðamenn New York Times höfðu upp á fólkinu í brottvísunarmiðstöð í Tyrklandi. 

Ein kvennanna á bátnum og móðir sex mánaða gamla barnsins, Naima Hassan Aden, kvaðst ekki hafa vitað hvort þau myndu lifa atvikið af. Hún segir verði landhelgisgæslunnar hafa villt á sér heimildir og logið að þeim að þeir væru starfsmenn Lækna án landamæra (MSF). 

„Þegar þau settu okkur í gúmmíbátinn var það án allrar miskunnar.“ 

Brot á Mannréttindasáttmála Evrópu

Myndbandið er mögulega sterkasta sönnunin til þessa um ólöglegar brotvísanir á flóttafólki af hálfu grískra yfirvalda, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau hafa verið sökuð um að senda fólk aftur til Tyrklands með ólögmætum hætti. Hugtakið kallast „pushback“ á ensku og telst almennt vera brot á Mannréttindasáttmála Evrópu og í mörgum tilfellum brot á Genfarsáttmálanum.

Ylva Johannsson, framkvæmdastjóri innanríkismála hjá ESB, sagði á Twitter að hún hefði sent ákall til grískra yfirvalda um að rannsaka málið. 

Framkvæmdastjórn ESB hefur vald til að hefja formleg málaferli gegn Grikklandi, en ferlið er til þess gert að refsa aðildarlöndum sem brjóta reglur sambandsins, meðal annars með því að stöðva opinber fjárframlög til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert