Lönd alræmd fyrir aftökur „fóru offörum“

125 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna kalla eftir stöðvun á aftökum.
125 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna kalla eftir stöðvun á aftökum. Ljósmynd/Amnesty International

Fjöldi aftaka í heiminum á síðasta ári hefur ekki verið meiri frá því árið 2017, að því er fram kemur í nýjustu skýrslu Amnesty International um dauðarefsinguna. Samtals voru 883 einstaklingar teknir af lífi í 20 löndum árið 2022, sem er 53% aukning frá árinu 2021. 

Í tilkynningu Amnesty International segir að lönd sem þegar séu alræmd fyrir aftökur hafi „farið offörum“ á síðasta ári, þannig hafi aftökum fjölgað í Miðausturlöndunum og Norður-Afríku úr 520 árið 2021 í 825 aftökur árið 2022. Þá hafi 81 einstaklingur verið tekinn af lífi á einum degi í Sádi-Arabíu.

Um 90% af skráðum aftökum í heiminum voru framkvæmdar í aðeins þremur löndum. 

Nákvæmar tölur ekki opinberar

Þess ber þó að geta að þúsundir aftaka sem taldar eru að hafi verið framkvæmdar í Kína á síðasta ári eru þar undanskildar en Kína, Norður-Kórea og Víetnam eru meðal þeirra ríkja þar sem beitingu dauðarefsingarinnar er haldið leyndri. Í tilkynningunni segir að vitað sé að þar sé refsingunni beitt í miklum mæli.

Nákvæmar tölur um fjölda aftaka í Kína eru ekki opinberar en það er ljóst að Kína framkvæmir langflestar aftökur, mun fleiri en Íran, Sádi-Arabía, Egyptaland og Bandaríkin,“ segir í tilkynningunni.

„Brutu alþjóðleg lög“

Í Íran fór fjöldi skráðra aftaka upp úr 314 árið 2021 í 576 árið 2022. Í Sádi-Arabíu þrefaldaðist fjöldinn, úr 65 árið 2021 í 196 árið 2022 en þetta er mesti fjöldi aftaka þar í landi sem Amnesty International hefur skráð. Í Egyptalandi voru 24 einstaklingar teknir af lífi.  

Ljósmynd/Amnesty International

„Lönd í Miðausturlöndum og Norður-Afríku brutu alþjóðleg lög með þessari miklu fjölgun á aftökum árið 2022 og sýndu þar með grimmilega vanvirðingu gagnvart mannslífum. Fjöldi einstaklinga sem var sviptur lífi sínu snarfjölgaði á þessu svæði. Sádi-Arabía tók 81 einstakling af lífi á einum degi. Nýverið, í ískyggilegri tilraun til að binda enda á mótmæli, tók Íran fólk af lífi fyrir að nýta rétt sinn til að mótmæla,“ er haft eftir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóra Amnesty International, í tilkynningunni.

37% vegna vímuefnabrota

Aftökur fyrir vímuefnabrot voru skráðar í fjórum löndum og voru 37% af öllum aftökum sem skráðar voru á heimsvísu af Amnesty International.

„Það eru grimmilegt að næstum 40% allra skráðra aftaka voru fyrir vímuefnabrot. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa það í huga að oftast eru þetta einstaklingar sem hafa átt erfitt uppdráttar sem verða fyrir barðinu á þessari grimmilegu refsingu. Nú er tími til kominn að ríkisstjórnir og Sameinuðu þjóðirnar þrýsti á að stjórnvöld sem brjóta mannréttindi með þessum blygðunarlausa hætti verði látin sæta ábyrgð og tryggi varnagla í alþjóðlegum lögum,“ er haft eftir Callamard.

Örlítil fækkun

Á sama tíma og aftökum fjölgaði var fjöldi einstaklinga sem voru dæmdir til dauða í raun sá sami og árið áður. Örlítil fækkun úr 2.052 dauðadóma árið 2021 í 2.016 árið 2022.   

Sex lönd afnámu dauðarefsingu að fullu eða að hluta. Kasakstan, Papúa Nýja-Gínea, Síerra Leóne og Mið-Afríkulýðveldið afnámu dauðarefsingu að fullu en Miðbaugs-Gínea og Sambía afnámu þær fyrir alla glæpi að undanskildum herglæpum.

Ljósmynd/Amnesty International

Þá framkvæmdu fimm lönd aftökur að nýju árið 2022: Afganistan, Kúveit, Mjanmar, Palestína og Singapúr.

Nú þegar 125 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, sem eru fleiri en nokkru sinni áður, kalla eftir stöðvun á aftökum er Amnesty International vongott um að þessi grimmilega refsing geti orðið og verði aðeins hluti af sögubókum. Sorglegar tölur fyrir árið 2022 minna okkur á að það er ekki hægt að gefa baráttuna eftir. Við verðum að halda henni á lofti þar til dauðarefsingin er afnumin um allan heim,“ er haft eftir Callamard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert