Fótbolti

Simeone: Ég spurði Suarez hvort Messi væri til í að koma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leo Messi og Luis Suarez í leik Barcelona og Atletico Madrid á síðasta tímabili.
Leo Messi og Luis Suarez í leik Barcelona og Atletico Madrid á síðasta tímabili. Getty/Urbanandsport

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atletico Madrid, hafði áhuga á því að fá Lionel Messi til liðsins þegar Argentínumaðurinn yfirgaf Barcelona í haust. Messi hefur sagt frá því sjálfur að mörg félög hafi forvitnast um hann.

Simeone er Argentínumaður eins og Messi en hann fór þá ekki beint til landa síns. Ástæðan var að einn besti vinur Messi spilaði með liðinu hans.

Simeone hefur nú viðurkennt það opinberlega að hafa spurt leikmann sinn, Luis Suarez, hvort að það væri einhver möguleiki á því að fá Messi til Atletico Madrid.

Messi ætlaði að semja aftur við Barcelona en fjárhagsvandræði Katalóníufélagsins komu í veg fyrir það og argentínski snillingurinn samdi á endanum við franska stórliðið Paris Saint Germain.

„Þegar allt þetta gerðist hjá Barcelona, þá hringdum við í Luis,“ sagði Diego Simeone í viðtali við argentínska blaðið Diario Ole.

„Ég hringdi ekki í Leo en ég hringdi í Luis til að kanna stöðuna á honum. Ég spurði hann út í hvernig Messi væri og hvort hann hefði áhuga. Er einhver smá möguleiki á því að hann gæti komið til Atletico Madrid,“ sagðist Simeone hafa spurt úrúgvæska framherjann sinn.

Suarez var besti vinur Messi hjá Barcelona en hann fór til Atletico Madrid fyrir rúmu ári síðan þegar Ronald Koeman, nýr þjálfari Börsunga, vildi ekkert með hann hafa. Suarez raðaði inn mörkum hjá Atletico og varð spænskur meistari á fyrsta ári.

Simeone sagði síðan að vonirnar um að semja við Messi hafi dáið fljótlega eftir að það kom í ljós að viðræðurnar við PSG gengu svona vel. Simeone grínaðist með þetta: „Þetta var eins og þegar flugvél flýgur fyrir ofan þig og þú segir: Þarna fer hún,“ sagði Simeone léttur.

„Ef þú myndir spyrja mig hvar Messi ætti að spila, þá væri svarið með liði sem vill vinna. Hann ætti að spila með liði sem veit hvernig það fer að því að vinna. Það skiptir engu máli hvar. Bara að það sé lið sem vill vinna og sé tilbúið í að vinna. Ekki hafa áhyggjur af honum. Hafið áhyggjur af liðinu,“ sagði Simeone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×