Á­kvörðun um dauða­dóm skuli tekin innan 60 daga

Kohberger var dreginn fyrir dóm í dag.
Kohberger var dreginn fyrir dóm í dag. AFP/Pool/Getty Images North America

Maðurinn sem sakaður er um að hafa myrt fjögur ungmenni í háskólabænum Moskvu í Idaho-ríki í Bandaríkjunum þann 13. nóvember í fyrra var dreginn fyrir dóm í dag. Sóknaraðilar hafa nú sextíu daga til þess að ákveða hvort dauðadóms sé krafist.

Bryan Kohberger, 28 ára doktorsnemi í afbrotafræði við háskóla Washingron-ríkis, var handtekinn þann 30. desember síðastliðinn fyrir morðin á Madison Mogen, 21 árs, Kaylee Goncalves, 21 árs, Xana Kernodle, 20 ára og Ethan Chapin 20 ára í desember síðastliðnum. Ungmennin voru stungin til bana á heimili sínu um miðja nótt.

Kohberger var handtekinn á heimili foreldra sinna í Pennsylvaníu eftir að erfðaefni hans fannst á hnífsslíðri. Hann var ákærður í fjórum liðum, þremur fyrir morð og einum fyrir innbrot.

Lögmaðurinn sá um að lýsa yfir sakleysi

Hann var hljóður fyrir rétti í dag og lýsti lögmaður Kohberger yfir sakleysi hans í hans stað. Búist er við því að réttarhöld málsins hefjist þann 2. október en möguleiki er á því að það seinkist. Þegar réttarhöld hefjast muni þau að öllum líkindum taka um sex vikur.

Hvað varðar refsingu þurfa sóknaraðilar nú að ákveða hvort þeir sækist eftir dauðadómi en slíkt er enn leyfilegt í Idaho. Þeim eru gefnir sextíu dagar til þess að taka ákvörðun um hvort að Kohberger ætti að vera dæmdur til dauða yrði hann dæmdur sekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert