Arnar: „Er búinn að ná munnlegu samkomulagi á öðrum stað“

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Arnar Grétarsson, fráfarandi þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, kveðst vera búinn að ná munnlegu samkomulagi við annað félag.

Fyrr í kvöld var tilkynnt að Hallgrímur Jónasson, sem hefur verið aðstoðarþjálfari Arnars, sé þegar tekinn við stjórnartaumunum hjá liðinu þrátt fyrir að enn séu fimm leikir eftir í Bestu deildinni á yfirstandandi tímabili.

Mbl.is heyrði í Arnari til þess að forvitnast um hvers vegna hann komi ekki til með að klára tímabilið sem þjálfari KA.

„Það þarf kannski meira að heyra í stjórnarmönnum KA varðandi það. En málið er bara það að ég er búinn að ná munnlegu samkomulagi á öðrum stað.

Ætli það spili ekki eitthvað inn í en það er svo sem ekki meira með það að segja,“ sagði Arnar.

Hann kvaðst ekki geta gefið neitt upp um hvaða félag væri að ræða að svo stöddu.

„Nei, ég ætla ekkert að fara meira út í það eða tjá mig meira um það. Það er raunin,“ sagði Arnar einnig.

Háværir orðrómar eru um að Arnar muni taka við karlaliði Vals að loknu tímabilinu. Ólafur Jóhannesson er þar þjálfari um þessar mundir en er aðeins með skammtímasamning sem rennur út eftir tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert