Á dögunum sögðum við ykkur frá frábæru gengi Bónus deildar lið ÍR í körfubolta sem hefur nú unnið fjóra leik í röð eftir að ráðist var í þjálfarabreytingar og Borche Ilievski ráðinn til starfa. Auk þess að þjálfa ÍR starfar Borche sem íþróttakennari í Landakotsskóla og hefur gert undanfarin þrjú ár.
Þú ert allan daginn í íþróttasalnum. Hljóma eins og fullkomnar aðstæður.
„Já klárlega,“ svarar Borche. „Síðustu þrjú ár hef ég starfað sem íþróttakennari hjá Landakotsskóla. Mínir dagar hefjast hér í íþróttasalnum hjá KR þar sem að ég kenni frá klukkan átta á morgnanna til klukkan tvö á daginn. Ég nýt þess að starfa í kringum þessi börn. Svo þarf maður að hvílast á milli, undirbúa sig og halda síðan aftur í íþróttasalinn að þjálfa ÍR. Ég nýt þessa fyrirkomulags, auðvitað getur það reynt á en er einnig mjög gaman. Í leik okkar gegn KR á dögunum voru flestir minna nemenda í stúkunni, og studdu auðvitað KR. En það var mjög gaman.“
Ætlaði að stoppa stutt á Íslandi
Borche var þjálfari ÍR yfir sjö ára tímabil til ársins 2021 og gerði frábæra hluti með liðið en saga hans og fjölskyldunnar hér á landi teygir sig átján ár aftur í tímann þegar að þau fluttust hingað búferlum frá Norður-Makedóníu og Borche tók við liði KFÍ á Ísafirði.
„Árið 2006 þegar að ég kem fyrst til Ísland og tek við KFÍ á Ísafirði varst þú þar sem krakki. Ég ætlaði bara stoppa stutt við á Íslandi. Á þessum tíma hafði ég verið valinn efnilegasti þjálfarinn í heimalandi mínu Norður-Makedóníu. Með því fóru hjólin að snúast og ég fékk atvinnutilboð frá Mið-Austurlöndum, Barein og Íslandi þá 31 árs gamall. Ég ákvað að reyna fyrir mér á Íslandi. Þannig hófst þessi saga.
Fyrstu árunum varði ég á Ísafirði, átti þar frábær ár. Þaðan fórum við til Sauðárkróks og svo til Reykjavíkur. Okkur fjölskyldunni líður sífellt meira eins og Íslendingum. Þrátt fyrir að ég tali ekki íslensku. Dætur mínar eru meiri Íslendingar heldur en Makedónar. Líf okkar er á Íslandi og ég nýt þess að gefa til baka í gegnum körfuboltann, hvort sem það er í gegnum yngri landsliðin eða félagsliðin. Körfuboltinn er mitt líf.“