Get ekki sagt að við séum með betra lið en Ísland

Eden Dzeko á landsliðsæfingu í gær.
Eden Dzeko á landsliðsæfingu í gær. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Bosníu

Eden Dzeko, fyrirliði bosníska landsliðsins í fótbolta, sat fyrir svörum blaðamanna á Bilino Polje-vellinum í Zenica í dag. Dzeko verður væntanlega í aðalhlutverki þegar Ísland og Bosnía mætast í fyrstu umferð í undankeppni EM annað kvöld.

„Það er mikilvægara að ná í góð úrslit en að spila vel. Hver leikur og hvert stig í okkar riðli skiptir miklu máli. Að sigra á morgun mun gefa okkur sjálfstraust fyrir komandi leiki. Við erum tilbúnir og munum gera allt sem við getum,“ sagði Dzeko.

Framherjinn er orðinn 37 ára gamall, en hann leikur í dag með Inter Mílanó á Ítalíu. „Það sýnir hvað ég er hungraður, að ég sé hér 37 ára. Ég spila þriðja hvern dag með félagsliði, en samt er ég alltaf mættur í landsliðið. Ég yrði himinlifandi ef liðið kemst á EM í fyrsta skipti.“

Hann á von á jöfnum leik gegn Íslandi. „Ég get ekki sagt að við séum betra lið en Ísland en ekki heldur að Ísland sé betra en við. Það mun hins vegar hjálpa okkur að vera á heimavelli,“ sagði framherjinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert