Rúnar Gunnarsson gefur kost á sér í prófkjöri Pírata

Rúnar er yfirhafnarvörður á Seyðisfjarðarhöfn og er fæddur og uppalinn …
Rúnar er yfirhafnarvörður á Seyðisfjarðarhöfn og er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði. Ljósmynd/Aðsend

Rúnar Gunnarsson mun gefa kost á sér í próf­kjöri Pírata í Norðausturkjördæmi fyr­ir alþing­is­kosn­ing­arn­ar í sept­em­ber, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Ég er tilbúinn til að taka hvert það sæti á listanum sem félli mér í skaut,“ segir hann.

Rúnar er yfirhafnarvörður á Seyðisfjarðarhöfn, er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og býr þar í dag. Hann lauk stúdentsprófi frá Háskólabrú Keilis árið 2019.

„Skóli lífsins hefur hins vegar kennt mér jafn mikið, ef ekki meira, en hefðbundin skólaganga og tel ég mig vel undirbúinn fyrir þær áskoranir sem fylgja stjórnmálum,“ segir hann í tilkynningunni.

Rúnar var formaður bæjarráðs Seyðisfjarðar frá árinu 2018, allt þar til sameinað sveitarfélag Múlaþings varð til. Í dag er hann fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar.

„Ég hef mikinn áhuga á byggðamálum, sjávarútvegs- og fiskeldismálum, jafnrétti og velferðarmálum svo eitthvað sé nefnt og tel mig hafa talsvert fram að færa til framdráttar samfélaginu. Og já, ég vil nýja stjórnarskrá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert