Erlent

Úkraínu­menn sagðir gera dróna­á­rásir langt inni í Rúss­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Hermaður fylgist með Tu-95-sprengjuflugvél á flugbraut á herflugvellinum í Engels í Rússlandi árið 2008. Úkraínumenn eru sagðir hafa gert drónaárás á flugvöllinn í gær.
Hermaður fylgist með Tu-95-sprengjuflugvél á flugbraut á herflugvellinum í Engels í Rússlandi árið 2008. Úkraínumenn eru sagðir hafa gert drónaárás á flugvöllinn í gær. Vísir/Getty

Drónaárás olli tjóni á olíubirgðastöð við flugvöll í Rússlandi nærri landamærunum að Úkraínu í nótt. Hún kemur beint í kjölfar úkraínskra árása á flugvelli langt inni í Rússlandi í gær.

New York Times hefur eftir Roman Starovoit, ríkisstjóranum í Kúrskhéraði í Rússlandi að engan hafi sakað í drónaárásinni þar snemma í morgun. Búið væri að slökkva eld sem kviknaði í stöðinni. Rússneski herinn notar flugvöllinn sem ráðist var á en hann er einnig notaður í borgaralegum tilgangi.

Þá virðast Úkraínumenn hafa borið ábyrgð á sprengingum á rússneskar herstöðvar í Rjazan og Engels, hundruð kílómetra frá landamærunum, í gær. Bandaríska blaðið hefur það eftir rússneska varnarmálaráðuneytinu og úkraínskum embættismanni að úkraínskir drónar hafi lent á herstöðvunum. Þrír hermenn eru sagðir hafa fallið og fjórir aðrir særst.

Úkraínski heimildarmaður New York Times segir að drónarnir hafi tekið á loft í Úkraínu. Sérsveit á staðnum hafi hjálpað að minnsta kosti öðrum þeirra að finna skotmark sitt.

Rússar fullyrða að þeir hafi stöðvað drónana en að mannfallið og tjón á tveimur flugvélum hafi orðið þegar drónarnir hröpuðu og brakið sprakk.

Engels-herflugvöllurinn við ána Volgu er bækistöð fyrir langdræg vopn rússneska hersins, þar á meðal kjarnorkusprengjuflugvélar. Úkraínumenn halda því fram að herstöðin sé einnig notuð til þess að stýra linnulausum flugskeytaárásum á innviði landsins, þar á meðal rafstöðvar og vatnsveitu.

Kort sem sýnir staðsetningu herflugvallanna tveggja í Rjazan og Engels sem Úkraínumenn eru sagðir hafa ráðist á með drónum.AP


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×