Sá yngsti ver reynsluboltann

Jordan Henderson og Jude Bellingham fagna eftir að Henderson kom …
Jordan Henderson og Jude Bellingham fagna eftir að Henderson kom Englandi yfir í gærkvöld. AFP/Anne-Christine Poujoulat

Jude Bellingham, hinn 19 ára gamli miðjumaður enska landsliðsins í knattspyrnu, hefur komið samherja sínum Jordan Henderson til varnar.

Henderson hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína og margir hafa dregið í efa þá ákvörðun Gareths Southgate, landsliðsþjálfara Englands, að tefla fyrirliða Liverpool fram í byrjunarliði á heimsmeistaramótinu í Katar.

Henderson svaraði fyrir það með því að skora fyrsta markið í 3:0-sigrinum á Senegal í gærkvöld og þar vakti einmitt athygli innilegur fögnuður Bellinghams.

„Ég hef séð sumt af þeirri vitleysu sem hefur verið skrifuð um hann. Þetta er hlægilegt. Hann er mjög vanmetinn leikmaður og það er tími til kominn að hann fái eitthvert hrós," sagði Bellingham við Daily Mail eftir leikinn í gær.

Bellingham hefur einnig deilt myndum af sér og Henderson á samfélagsmiðlum og skrifað þar að sá síðarnefndi verðskuldi virðingu.

Fögnuður þeirra Hendersons og Bellinghams eftir markið í gær hefur líka leitt til talsverðra vangaveltna um hvort Bellingham sé á leiðinni til Liverpool. Hann leikur með Dortmund í Þýskalandi og er eini leikmaður enska landsliðsins sem spilar utan Englands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert