Jómfrúarsiglingin hafin í kringum Ísland

Crystal Endeavor siglir nú hringinn í kringum landið.
Crystal Endeavor siglir nú hringinn í kringum landið. Ljósmynd/Crystal Cruises

Skemmtiferðaskipið Crystal Endeavor er lagt af stað í tíu daga jómfrúarsiglingu í kringum Ísland. Skipið lagði úr Reykjavíkurhöfn í gær.

Ferðin er sú fyrsta af fimm lúxussiglingum sem farnar verða í kringum landið en eins og Morg­un­blaðið greindi frá í apríl mun snekkjan, sem er í eigu Crystal Cruises, koma við í nokkr­um höfn­um á lands­byggðinni á leiðinni.

Crystal Endeavor rúmar 200 gesti í 100 svítum og er stærsta, hraðskreiðasta og kraftmesta snekkja sinnar tegundar að sögn talsmanna Endeavor. 

Gestum snekkjunnar ætti ekki að leiðast á ferð sinni í kringum landið en um borð Endeavor er að finna 18 Zodiac-báta, 14 sjókajaka, snorklbúnað og tvær sex manna þyrlur sem gerðar eru út beint frá snekkjunni.

Hrífandi strandlengjur og óteljandi fossar

Á öllum viðkomustöðum snekkjunnar í Íslandsferðunum er boðið upp á skoðunarferðir undir stjórn náttúrufræðinga sem tilheyra leiðangursteymi skipsins. Með í för eru einnig tveir atvinnuljósmyndarar, sérfræðingar í heimskautaleiðöngrum og listamaður sem mun hvetja gesti til að fanga ferðaminningarnar í formi ljósmynda og teikninga.

Samkvæmt tilkynningu Crystal Cruises eiga ferðirnar að varpa ljósi á „hríf­andi strand­lengj­ur og friðlönd dýra­lífs, risa­vaxna jökla og ótelj­andi fossa, huggu­leg þorp og töfr­andi arf­leifð ís­lenskra þorpa og eyja“.

Yfir helmingur Íslandsferða með Crystal Endeavor bókaðist innan við sólarhring eftir að opnað var fyrir bókanir í apríl.

Gestir og starfsmenn snekkjunnar eru allir fullbólusettir, samkvæmt umfjöllun Travel Weekly.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert