Fótbolti

Ofurparið til Bayern og Glódís fær enn meiri samkeppni

Sindri Sverrisson skrifar
Magdelena Eriksson og Pernille Harder hafa verið afskaplega sigursælar með Chelsea en halda nú til Þýskalands.
Magdelena Eriksson og Pernille Harder hafa verið afskaplega sigursælar með Chelsea en halda nú til Þýskalands. Getty/Chloe Knott

Þýski knattspyrnurisinn Bayern München tilkynnti í dag um mikinn liðsstyrk sem jafnframt mun auka enn samkeppnina fyrir Glódísi Perlu Viggósdóttur í liðinu, fari svo að hún haldi kyrru fyrir hjá Bayern í sumar.

Stjörnuparið Pernille Harder og Magdalena Eriksson skrifaði undir samning til þriggja ára við Bayern. Harder er þrítugur sóknarmaður en Eriksson 29 ára miðvörður og því mögulega nýr félagi Glódísar í miðri vörn Bayern, en Glódís lék alla leiki með liðinu í þýsku deildinni í vetur. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir eru einnig á mála hjá Bayern, sem varð Þýskalandsmeistari á sunnudaginn.

Hin danska Harder lék síðast í Þýskalandi á árunum 2017-2020 og er góð vinkona Söru Bjarkar Gunnarsdóttur eftir að þær voru þar liðsfélagar hjá Wolfsburg. Hún skoraði 68 mörk í 75 deildarleikjum með Wolfsburg.

Hin sænska Eriksson hefur leikið með Chelsea frá árinu 2017 og var fyrirliði liðsins en Harder gekk til liðs við félagið árið 2020.

Harder varð tvöfaldur meistari með Chelsea öll þrjú árin, og fór einnig með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2021. Eriksson náði að vinna fimm Englandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla.

„Ég átti góðan tíma í þýsku deildinni og hlakka til að snúa aftur þremur árum síðar. Frammistaða þýska landsliðsins á EM síðasta sumar sýnir hvernig deildin hefur þróast. Ég er glöð að snúa aftur og get ekki beðið eftir að byrja að spila hérna á nýjan leik,“ sagði Harder og sagði mikið búa í liði Bayern auk þess sem að norski þjálfarinn Alexander Straus hefði heillað hana.


Tengdar fréttir

„Tók meira leið­toga­hlut­verk og naut mín mjög vel“

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, lék hverja einustu mínútu á nýafstaðinni leiktíð, þegar Bayern München varð Þýskalandsmeistari í fimmta sinn. Hún segir hlutverk sitt sem leiðtogi hjá Bayern hafa stækkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×