Íslenska liðið lenti á slóvenskum vegg

Lovísa Thompson var besti útileikmaður íslenska liðsins í Slóveníu.
Lovísa Thompson var besti útileikmaður íslenska liðsins í Slóveníu. Ljósmynd/Robert Spasovski

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta þarf á kraftaverki að halda á Ásvöllum næstkomandi miðvikudag er seinni leikur liðsins við Slóveníu í undankeppni HM fer fram eftir 14:24-tap í fyrri leik liðanna í Ljubljana á laugardag.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna tapaðist leikurinn á slökum sóknarleik, en íslenska liðið réð lítið við sterka vörn og markvörslu Slóvena. Þá var ákveðinn gæðamunur á liðunum, en sterkar slóvenskar skyttur virtust geta stokkið upp að vild fyrir utan og skorað falleg mörk. Oftar en ekki endaði boltinn í lúkum varnarmanna Slóveníu er skyttur íslenska liðsins reyndu svipuð skot. Lovísa Thompson var markahæst með fimm mörk, en hún var ekki í öfundsverðu hlutverki. Hvað eftir annað neyddist hún til að taka af skarið, oft í erfiðum stöðum, þar sem liðsfélagar hennar urðu ragir og virkuðu smeykir. Slóvenska liðið er einfaldlega betra en það íslenska og það sást.

Vörn og markvarsla í lagi

Varnarleikur og markvarsla var helsta ástæða þess að munurinn er ekki meiri fyrir seinni leikinn, enda alls ekkert stórslys að fá á sig 24 mörk. Íslenska vörnin var grimm framan af og þær Helena Rut Örvarsdóttir og Mariam Eradze litu sérstaklega vel út í hjarta varnarinnar. Eftir því sem leið á leikinn fann slóvenska liðið fleiri glufur á vörninni, en fyrir aftan hana var Elín Jóna Þorsteinsdóttir í fínum ham. Saga Sif Gísladóttir hélt svo hreinu, en hún kom inn á í fjórum vítum og aldrei tókst þeim slóvensku að finna leið framhjá henni.

Ljóst er að keppnisbannið sem var hér á landi hafði áhrif á íslenska liðið, enda spila nánast allir leikmenn þess með liðum hér heima. 

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert