Guðný og Elísa ekki með vegna meiðsla

Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Guðný Árnadóttir í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Varnarmennirnir Guðný Árnadóttir, leikmaður AC Milan, og Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, eru ekki í landsliðshópnum sem mætir Nýja-Sjálandi og Sviss í vináttulandsleikjum í knattspyrnu í næsta mánuði.

„Elísa er meidd og getur ekki verið með. Guðný er líka meidd en er samt að spila með Milan. Hún fer í aðgerð á öxl og þeir eru bara að bíða og sjá hvenær þeir ætla að setja hana í aðgerð.

Hún er ekki 100 prósent en þeir eru samt að láta hana spila. Ég ákvað að velja hana ekki, það gæti alveg verið að hún fari í aðgerð á meðan við erum í verkefninu, við vitum það ekki. Það fer svolítið eftir því hvernig gengur hjá þeim.

Þær eru að vonast til þess að komast í Evrópukeppni, ná öðru sætinu, en eru níu stigum frá því í dag þannig að hún gæti farið í aðgerð eftir helgina ef þær tapa um helgina.

Hún er ekki 100 prósent þannig að við ákváðum að hvíla hana í þessu verkefni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Hann bætti því við að Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Parísar SG, væri ekki valin að þessu sinni þar sem hún fengi ekkert að spila hjá félagsliði sínu.

Það að hún hafi spilað með landsliðinu á Pinatar-mótinu á Spáni í síðasta mánuði hafi engu breytt um stöðu hennar hjá PSG þrátt fyrir vonir þar um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert